UNIT gerir „Publish & Read“ samning við Elsevier

UNIT, norskt samlag um æðri menntun og rannsóknir, sem m.a. sjá um samninga um tímaritaáskriftir fyrir hönd 39 norskra háskólabókasafna og rannsóknarstofnanna, hafa gert svokallaðan „Publish & Read“ samning við Elsevier. Samningurinn er af svipuðum toga og Projekt Deal samningurinn við Wiley frá því í janúar. Forsaga málsins er sú að í mars slitnaði uppúr samningaviðræðum milli UNIT og Elsevier um áframhald á hefðbundnum tímaritaáskriftarsamningi. Í þessum nýja samningi felst að aðilar að UNIT hafa aðgang að tímaritum hjá Elsevier en borga um leið fyrir birtingu í opnum aðgangi. Áður fyrr var greitt fyrir þetta í tvennu lagi. Þó þetta komi í veg fyrir tvöfaldan kostnað (double dipping) bókasafnanna er ýmislegt gagnrýnivert varðandi samninginn. Jon Tennant bendir á að samningurinn hljóði uppá 9 milljónir evra, en það er 3% aukning frá síðasta tímaritaáskriftasamningi Að hans mati eru Norðmennirnir í raun að borga 9 milljónir evra fyrir upphefðina að fá að birta í tímaritum á vegum Elsevier. Þetta hafi ekkert að gera með raunverulegan kostnað við útgáfu á vísindaefni né mikilvægi þess og sýni hversu valdahlutföllin milli höfunda og útgefanda vísindaefnis séu í miklu ójafnvægi.