Birting í tímaritum frá Sage

Landssamningur við Sage

Í gildi er samningur um opinn aðgang (e. transformative agreement) að tímaritum útgáfufyrirtækisins Sage sem gefur út tímarit á sviði félags-, hug-, heilbrigðis- og lífvísinda.

Samningurinn felur í sér að fram til 31. desember 2025 þurfa íslenskir vísindamenn sem tengjast íslenskri stofnun og vilja birta greinar í sk. blönduðum  tímaritum (e. hybrid journals) Sage, ekki að greiða birtingagjöld. Ef ætlunin er að fá birtar greinar í tímaritum sem eru í opnum aðgangi samkvæmt Gylltu leiðinni (e. Gold Open Access) þá er hægt að fá 20% afslátt af birtingagjöldum (eða hærri afslátt sé hann í boði). Þetta á við í því tilfelli að handrit séu samþykkt til birtingar.

Höfundar sem að tengjast íslensku stofnunum og hafa vinnutengd tölvupóstföng eru gjaldgengir til að birta greinar í tímaritum í Premier 2019 tímaritapakka sem er í landsaðgangi.

Helstu atriði samningsins við Sage:

      • Greinar í opnum aðgangi eru samkvæmt CC-BY birtingarleyfum. Sjálfgefin (e. by default) stilling við innsendingar greina í kerfum Sage er CC BY NC birtingarleyfi.
      • Höfundar halda höfundarétti sínum og framselja hann ekki til útgefenda (e. non-exlusive rights).
      • Umsjónarmaður Landsaðgangs mun staðfesta við útgefanda að höfundar tengist íslenskum stofnunum og eigi rétt á að fá birtingu á greinum í opnum aðgangi samkvæmt samningnum.
      • Höfundar greina sem birtast í opnum aðgangi geta vistað „post-print“ útgáfu í varðveislusafni – opinvisindi.is. Græna leiðin (e. Green Open Access).

Forprent og rannsóknir um nám í læknisfræði

Forprent eða preprint er útgáfa af rannsóknarhandriti sem er birt er á preprint vefþjóni áður en ritrýni fer fram. Forprent gera höfundum kleift að deila rannsóknum á fljótlegan hátt, fá skjóta endurgjöf og gera mögulega skráningu rannsókna í styrkumsóknum.

Flest tímarit sem varða nám í læknisfræði eru samþykk forprentum, sem bendir til þess að þau gegni hlutverki í umræðu á þessu sviði. Samt er lítið vitað um forprent um nám lækna, þar á meðal hvað einkennir höfunda, hvernig forprentin eru notuð og hlutfall endanlegrar útgáfu. Nýlega kom út rannsókn sem veitir ágætt yfirlit varðandi þessi mál: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

Þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar má sjá að höfundar draga eftirfarandi ályktanir: Algengt er að rannsóknir varðandi nám í læknisfræði séu birtar sem forprent og fá þannig mikla kynningu og niðurhal og eru í framhaldinu birtar í ritrýndum tímaritum (allt að helmingur), þar af í tímaritum sem fjalla um nám í læknisfræði. Miðað við kostina sem fylgja forprenti og seinagang sem fylgir útgáfu rannsókna um nám í læknisfræði er líklegt að fleiri muni nýta sér forprent og það verði hluti af umræðu á þessu sviði.

Meira um aðferðir við rannsóknina, niðurstöður og umfjöllun: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

 

Útgáfumerking til að tryggja gæði

Allir kannast við næringarmerkingar á matvöru. Nú hafa samtökin Public Knowledge Project lagt til nk. útgáfumerkingu fyrir rannsóknargreinar þar sem tiltekin eru átta atriði til að bæta gæði varðandi útgáfu tímaritsgreina og hafa gagnsæi í fyrirrúmi.  Samtökin eru óhagnaðardrifin, rekin af John Willinsky og kollegum hans við Simon Fraser University í Burnaby, Canada.

Willinsky vill að fræðileg útgáfa upplýsi lesendur um hversu nákvæmlega greinin/tímaritið uppfyllir akademískar kröfur. Til að byrja með hefur útgáfumerkingin verið þróuð fyrir tímarit sem gefin eru út á OJS (e. Open Journal Systems) formi.

Meira um þetta áhugaverða verkefni í greininni Researchers want a ‘nutrition label’ for academic-paper facts

Mynd: J. Willinsky & D. Pimentel/Learned Publishing (CC BY 4.0 DEED)