Hollendingar og demantaleiðin

Í Hollandi er hafið verkefnið „Enhancing Diamond Open Access in the Netherlands“ til að efla og styrkja fræðilega útgáfu á vegum bókasafna og annarra, sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Þetta verkefni er í samræmi við skýrsluna „Versterking ondersteuning van diamant open access in Nederland“ á vegum hollensku háskólanna (UNL).

Þessi ráðstöfun er í takt við markmiðin sem sett eru fram í metnaðarfullri áætlun National Plan Open Science 2030, þar sem áhersla er lögð á fjárfestingar í opnum innviðum til að hlúa að vistkerfi fræðilegra samskipta.

Erasmus háskólinn í Rotterdam leiðir verkefnið í samvinnu við UKB* og UNL og er markmiðið að  styrkja demantaleiðina (Diamond Open Access -DOA) með samþættri nálgun, þar á meðal að koma á fót innlendri miðstöð sérfræðinga, efla getu á vettvangi DOA útgáfu og innleiða mælingar á henni.

*UKB er samstarfsvettvangur hollenskra háskólabókasafna og The Royal Library of the Netherlands.

Bresk fræðafélög og útgáfa. Ný rannsókn

You don’t know what you’ve got till it’s gone: The changing landscape of UK learned society publishing

Ný rannsókn (preprint) á langsniðsgögnum frá 2015 – 2023 varðandi útgáfu 277 breskra fræðafélöga sýnir að útgáfulandslagið hefur breyst til muna.

Þar er bent á mikla fækkun félaga sem gefa út sjálf og sífellt flóknara landslag útgáfu og útvistunar henni tengdri. Samstarf við háskólaútgáfur hefur aukist og  einnig samstarf við aðrar óhagnaðardrifnar stofnanir. Öll nema stærstu bresku fræðafélögin hafa séð tekjur sínar af útgáfu minnka að raungildi síðan 2015.
Lesa áfram „Bresk fræðafélög og útgáfa. Ný rannsókn“

Er einhver glóra í þessu?

Eftirfarandi er unnið upp úr greininni „Scientists paid large publishers over $1 billion in four years to have their studies published with open access“ sem birtist í El País USA Edition, 21. nóvember 2023.

Í greininni kemur fram að hagnaðarhlutfall helstu útgefenda vísindatímarita nemur allt að 30% – 40% sem er langt umfram flestar atvinnugreinar. Er einhver glóra í þessu?

Hollenski risinn Elsevier  birti 600.000 rannsóknir á síðasta ári (2022), þar af um fjórðung í opnum aðgangi.  Samkvæmt reikningum Elsevier fyrir árið 2022 námu árstekjur fyrirtækisins 3,5 milljörðum dala, þar af voru 1,3 milljarðar dala í hagnað.  Ef rýnt er í þessar tölur má ætla að fyrir hverja 1000 dollara sem fræðasamfélagið eyðir í útgáfu hjá Elsevier, fari um 400 dollara í vasa hluthafa þess.

Þýski rannsakandinn Stefanie Haustein bendir á þversagnir núverandi kerfis.  Vísindasamfélagið borgar fyrir að gefa út eigin rannsóknir og vinnur ókeypis fyrir útgefendur við að ritrýna verk annarra samstarfsmanna . Samt sem áður þurfa stofnanir  að borga ársáskrift til að lesa tímarit sem ekki eru í opnum aðgangi.

„Þetta þýðir að fræðasamfélagið þarf að borga fyrir að fá aðgang að efninu sem það hefur gefið ókeypis. Og í ofanálag stendur almenningur frammi fyrir greiðsluvegg, þegar að það eru oft skattar almennings sem fjármagna þessar rannsóknir og útgáfu þeirra. Þetta er ósjálfbært líkan sem er að tæma fjárveitingar til rannsókna um allan heim,“ segir Haustein, sem hefur birt niðurstöður sínar í tímaritinu International Society for Scientometrics and Informetrics.