Íslenskar stefnur um OA

Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (2003)

Í 10 gr. laga nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir kemur eftirfarandi fram:
“Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.

Háskólinn á Bifröst (2011)

Háskólinn á Bifröst samþykkti stefnu um opinn aðgang í maí 2011 og aftur í maí 2019. Frá og með 1. ágúst 2019 gildir sú stefna. Þar segir meðal annars:
„Háskólinn á Bifröst hefur markað þá stefnu að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er af akademískum starfsmönnum við skólann. Til þess að svo megi verða samþykkja akademískir starfsmenn skólans að leitast við að birta fræðigreinar sínar í opnum aðgangi, annað hvort í gegnum tímarit sem gefin eru út í opnum aðgangi eða með safnvistun.“

Háskólinn í Reykjavík (2014)

Háskólinn í Reykjavík samþykkti stefnu um opinn aðgang í nóvember 2014. Hún hefst á þessum orðum: „Akademískir starfsmenn HR skulu leitast við að birta afurðir vísinda- og kennslustarfs síns í opnum aðgangi.“

Háskóli Íslands (2014)

Háskóli Íslands samþykkti stefnu um opinn aðgang á háskólaþingi 2014 og tók hún gildi 1. september 2015. Hún hefst á þessum orðum: „Háskóli Íslands leggur áherslu á að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er innan háskólans. Háskólinn hvetur því starfsmenn til að birta fræðigreinar sínar á vettvangi þar sem aðgangur er opinn, svo sem í tímaritum í opnum aðgangi, safnvistun, forprentagrunnum, eða á annan hátt.“ 

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (2016)

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn samþykkti stefnu um opinn aðgang í nóvember 2016. Þar segir meðal annars:
„Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn styður opinn aðgang að efni og gögnum á Internetinu. Safnið kemur með virkum hætti að því að efla opinn aðgang að menningararfi þjóðarinnar, rannsóknarniðurstöðum og fræðilegu efni á Íslandi. Þann 9. nóvember 2017 undirritaði Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn Expression of Interest in the Large-scale Implementation of Open Access to Scholarly Journals.

Rannís

Reglur Rannís um birtingu í opnum aðgangi. Þar segir meðal annars:
„Rannís hvetur vísindamenn til að birta niðurstöður sínar í tímaritum sem alfarið eru gefin út í opnum aðgangi.“

Sameiginlegt með þessum lögum og stefnum er að hvatt er til birtingar í opnum aðgangi en þess er ekki krafist.  Víða erlendis eru stefnur varðandi opinn aðgang mun strangari og víða skylda.

Árnastofnun

Fyrsta útgáfa stefnu var unnin í apríl 2016 en stefna stofnunarinnar í núverandi mynd var samþykkt á húsfundi 9. júní 2020.

Mynd: „Fánakort af Íslandi“  eftir Stasyan117  með leyfi samkvæmt CC-BY-SA 4.0 International leyfinu.