OpenAIRE

OpenAIRE

OpenAIREOpenAIRE (Open Access Infrastructure for Research in Europe) var upphaflega heiti verkefnis sem Evrópusambandið setti af stað árið 2011.

Verkefnið reyndist evrópsku rannsóknarumhverfi mikilvægt og árið 2018 var ákveðið að tryggja varanleika þess og formfesta í stofnuninni OpenAIRE A.M.K.E. sem yfir 65 evrópskir háskólar, rannsóknastofnanir og aðrar stofnanir eiga aðild að.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er formlegur aðili að OpenAIRE A.M.K.E., auk þess sem Heilbrigðisvísindabókasafn Landspítala hefur félagsaðild (e. associate membership), en starfsmenn síðarnefnda safnsins tóku virkan þátt í verkefninu OpenAIRE. Framtíðarsýn OpenAIRE byggir á þeirri hugsjón að opinn aðgangur  að staðfestri vísindalegri þekkingu sé öllum til hagsbóta, auki nýsköpun og geti breytt samfélögum til góðs.

OpenAIRE á fulltrúa í 37 löndum Evrópu og víðar sem kynna starfsemi þess innan sinna landa og stofnana. Sjá nánar um fulltrúa Íslands. Stefnan er sú að ná til sem flestra til að vinna að stefnumörkun um opin vísindi og aðstoða rannsakendur við að tileinka sér vinnubrögð opinna vísinda og vista rannsóknarafurðir styrktar af rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins í opnum aðgangi eins og styrkþegum ber að gera.

Segja má að verkefni OpenAIRE skiptist í tvo hluta. Annars vegar að ná til sem flestra með góðu úrvali af fræðslu og stuðningi, s.s. vinnustofur, vefnámskeið og fræðsluefni og hins vegar að koma upp traustum, tæknilegum innviðum sem auðvelda leið að fræðilegu efni í opnum aðgangi og þjónusta rannsakendur og rannsóknarstofnanir á ýmsa vegu.  Leitarvél þeirra, Explore, leitar í viðurkenndum varðveislu- og gagnasöfnum sem uppfylla gæðastaðla OpenAIRE og veitir nú aðgang að um 130 milljónum gagna í opnum aðgangi.

Sjá yfirlit yfir þjónustu og tæknilegar lausnir í boði OpenAIRE.

Dæmi um verkefni á þeirra vegum er OpenAIRE Observatory  en þar má sjá stöðuna í Evrópu á hverjum tíma varðandi opinn aðgang og einnig í hverju landi fyrir sig. Skoða Ísland nánar.

OpenAIRE er aðili að EOSC (The European Open Science Cloud) og vinnur með þeim að ýmsum verkefnum. Nánar um EOSC á íslensku.