Hvað er OA

Open access – alþjóðleg hreyfing

Opinn aðgangur (e. open access – OA) er heiti á alþjóðlegri hreyfingu sem leitast við að stuðla að opinni útgáfu og ókeypis aðgangi að vísindalegu efni á netinu, svo sem ritum og gögnum. Útgefið efni er skilgreint í „opnum aðgangi“ þegar allir hafa hindrunarlausan aðgang að efninu, þ.e. engar fjárhagslegar, lagalegar eða tæknilegar hindranir eru á aðganginum. Allir geta lesið, halað niður, afritað, dreift, prentað, leitað að og leitað innan upplýsinganna eða notað efnið til fræðslu eða með öðrum hætti svo fremi að vitnað sé rétt til höfundar.

Open access – útgáfulíkan

Opinn aðgangur er jafnframt útgáfulíkan fyrir vísindalegt efni sem gerir rannsóknarupplýsingar aðgengilegar lesendum án endurgjalds, öfugt við hefðbundið áskriftarlíkan þar sem lesendur hafa aðgang að fræðilegum upplýsingum með því að greiða áskrift (venjulega í gegnum bókasöfn).

Einn mikilvægasti kosturinn við opinn aðgang er að hann eykur sýnileika og endurnotkun fræðilegra rannsóknarniðurstaðna.

Grundvallaratriði varðandi opinn aðgang eru sett fram í Berlínaryfirlýsingunni frá 2003:
Berlin Declaration on Open Access to Knowledge in the Sciences and Humanities (2003). Þessi yfirlýsing hefur verið undirrituð af mörgum alþjóðlegum samtökum um vísindarannsóknir. Þess má geta að Vísinda- og tækniráð, sem starfar undir stjórn forsætisráðherra, undirritaði Berlínaryfirlýsinguna í maí 2010. Við undirritunina hvatti ráðið alla forsjáraðila opinberra sjóða á Íslandi til að skuldbinda styrkþega sjóðanna til að birta afurðir þess sem styrkt væri í OA.

Markmið

Markmið opins aðgangs (Open access – OA) er að niðurstöður rannsókna sem fjármagnaðar eru af opinberu fé séu aðgengilegar á rafrænu formi með eins víðtækum og einföldum hætti og kostur er og nýtanlegar sem flestum án endurgjalds.

Heildartexta fræðigreina og annars fræðilegs efnis, t.d. skýrslur og rannsóknargögn í opnum aðgangi má því lesa, dreifa, afrita og nota, svo fremi að vitnað sé rétt til höfundar.

Opinn aðgangur stuðlar að því að efla vísinda- og fræðastarf en tilgangurinn er að hraða framþróun í vísindastarfi í allra þágu. Efni í opnum aðgangi er m.a. rannsóknarniðurstöður, rannsóknargögn, lýsigögn og stafræn framsetning texta og myndefnis (úr stefnu Landsbókasafns um opinn aðgang og opin vísindi).