„Opin þekking“ – leiðir til uppbyggingar og þróunar

Kort af Evrópu: Hayden120MaGa, CC BY-SA 3.0 af vef Wikimedia Commons.

Áhrif opins aðgangs á þekkingu, ekki bara innan háskólastigsins heldur einnig hjá hinu opinbera og í stefnumótun stofnana, má í stórum dráttum þakka viðleitni tveggja hópa þ.e. upplýsingafræðinga og rannsakenda. Framganga þeirra í tengslum við opinn aðgang  (e. OA), opna menntun (e. OE) og opin vísindi (OS) hefur umbreytt kennslu rannsókna, framkvæmd þeirra og miðlun.

Um þetta má lesa nánar í  eftirfarandi könnunarrannsókn en pistill þessi er lauslega þýtt ágrip rannsóknarinnar:

Santos-Hermosa, G., & Atenas, J. (2022). Building capacities in open knowledge: Recommendations for library and information science professionals and schools. Frontiers in Education, 7 doi:10.3389/feduc.2022.866049

Í rannsókninni var safnað gögnum um hvernig og hvort  markviss kennsla fer fram í tengslum við opinn aðgang að þekkingu. Skoðaðar voru námskrár námsbrauta í bókasafns- og upplýsingafræði á grunn- og framhaldsstigi háskóla í Evrópu og þar af skoðaðir sérstaklega háskólar sem a) eru leiðandi á sviði opins aðgangs, opinna vísinda eða opinnar menntunar b) hafa markað stefnu um opinn aðgang, opin vísindi eða opna menntun c) hafa umboð frá hinu opinbera um stefnumörkun eða regluverk varðandi opinn aðgang, opin vísindi eða opna menntun. Einnig var skoðuð ýmis óformleg fræðsla og þjálfun varðandi þetta þrennt.

Í ljós kom að þó að háskólar með námsbrautir í upplýsingafræðum, bjóði ekki upp á formlega kennslu til að auka hæfni og færni í þessum þáttum þá bjóða bókasöfn sömu skóla hins vegar þjálfun af öðrum toga. Það vantar þó töluvert upp á að góðar fyrirætlanir og skilningur á stefnum sjáist nægilega í verki.

Rannsókninni er ætlað að stuðla að frekari uppbyggingu og þróun varðandi  opna þekkingu og kemur með ábendingar varðandi námskrár námsbrauta í bókasafns- og upplýsingafræðum.