Bill og Melinda Gates Foundation: Breytt stefna

Sjóðurinn Bill & Melinda Gates Foundation kynnti á dögunum nýja stefnu sína varðandi opinn aðgang. Stefnan byggir á þremur lykilatriðum:

      • Hætt verður að greiða APC gjöld (Article Processing Charges) við birtingu tímaritsgreina
      • Styrkþegum sjóðsins ber skylda til að birta vinnu sína sem forprent (preprints)
      • Sjóðurinn skuldbindur sig til að styðja opna vísindainnviði

Þessari stefnubreytingu er fagnað og hún endurspeglar vaxandi samstöðu innan fræðasamfélagsins.

Nánar hér: The Open Access rising tide: Gates Foundation ends support to Article Processing Charges.

UNESCO: Open Science Outlook 1

Í desember 2023 var gefin út skýrsla á vegum UNESCO sem ber heitið Open Science Outlook 1: Status and trends around the world.

Skýrslan kemur í beinu framhaldi af tilmælum UNESCO um opin vísindi frá 2021 og er fyrsta alþjóðlega úttektin á stöðu og straumum  varðandi opin vísindi. Hún hefur að geyma nokkur lykilskilaboð og gefur einnig tóninn hvað varðar mat á innleiðingu tilmæla UNESCO en dregur einnig fram mikilvægar eyður í þeim gögnum og upplýsingum sem þegar liggja fyrir.

Þann 15. febrúar 2024 var síðan haldinn sameiginlegur fundur með fimm vinnuhópum á vegum UNESCO sem hafa einbeitt sér að mikilvægum sviðum sem skipta máli fyrir innleiðingu tilmælanna. Þetta var 4. fundur hvers vinnuhóps og tilgangurinn sá að kynna lykilskilaboð skýrslunnar. Sjá myndband hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar:
https://www.unesco.org/en/open-science

Opin vísindi og Carnegie Mellon University í Pittsburgh, PA

Carnegie Mellon háskólinn í Pittsburgh, Pennsylvaníu (USA) hélt  málþing um opin vísindi í byrjun  nóvember 2023, „Open Science Symposium 5 years later„. Það er áhugavert að skoða hvað hefur gerst hefur hjá þessum einkarekna rannsóknaháskóla á undanförnum fimm árum með tilliti til opinna vísinda. Skólinn er álíka stór og Háskóli Íslands, með um 14.500 nemendur og  yfir 1300 starfsmenn.

Málþingið skiptist í fjóra hluta, þar af eru þrír þeirra á upptökunni hér fyrir neðan:

      1. Open Science in Research and Learning
      2. Open Science & Communities
      3. Impact of Policies

Fjallað er um mýmörg atriði sem falla undir opin vísindi og álitamál þeim tengdum.