Eru að verða straumhvörf varðandi opinn aðgang?

Hér á eftir fer lausleg þýðing og samantekt á grein sem Moumita Koley, ráðgjafi um framtíð fræðilegrar útgáfu hjá ISC International Science Council ritaði nýlega: Is the Tide Turing in Favour of Universal and Equitable Open Access? Í greininni deilir hún sýn sinni á ríkjandi útgáfumódel í fræðilegri útgáfu – sem er að mestu undir stjórn hagnaðardrifinna útgefenda. Hún varpar ljósi á aðra valkosti sem stöðugt vinna á innan fræðasamfélagsins.

Akademísk útgáfa hefur lengi einkennst af útgefendum sem krefjast hárra áskriftargjalda, takmarka aðgang að rannsóknargögnum og setja strangar reglur um höfundarrétt. Þetta hefur síðan leitt til þess að bókasöfn hafa lengi átt í erfiðleikum með að greiða fyrir aðgang að tímaritum á meðan útgefendur uppskera mikinn hagnað. Þrátt fyrir þá staðreynd að hið opinbera fjármagnar rannsóknir í miklum mæli og fræðimenn veiti ókeypis ritrýni, halda útgefendur áfram að hagnast. Sem dæmi má nefna útgefandann Elsevier sem greindi frá 38% hagnaði árið 2022  samanborið við 15% hagnað útgáfu sem ekki er af fræðilegum toga.

Þetta ástand hefur leitt til öflugrar hreyfingar sem berst fyrir útgáfu í opnum aðgangi, en því fylgja vissulega áskoranir. Í stað hárra áskriftargjalda krefjast viðskiptamódel opins aðgangs oft þess að höfundar greiði birtingagjöld (APC – Article Processing Charge) til að gera rannsóknir sínar aðgengilegar. Þó að þetta kunni að virðast sanngjarnt við fyrstu sýn, getur kostnaður við birtingagjöld verið byrði fyrir marga vísindamenn, sérstaklega í lág- og meðaltekjulöndum. Þetta skapar fjárhagslega hindrun sem aðeins þeir sem hafa fjármagn geta sigrast á og viðheldur ójöfnuði í útgáfu. Sem dæmi má nefna að hið virta tímarit Nature hefur sett upp birtingagjöld sem geta numið allt að 11,690 USD.

Ennfremur geta há birtingagjöld orðið til þess að útgefendur taki greinar sem afla tekna fram yfir þær sem hafa fræðilegt gildi. Þetta getur leitt til einsleitni rannsókna og vanrækslu á viðfangsefnum sem hafa ef til vill ekki augljósa hagnaðarvon.

Til að bregðast við þessum áskorunum hafa ritstjórar einstakra tímarita hafa tekið afstöðu gegn útgefendum. Þeir hafa sagt upp störfum í massavís og jafnvel hleypt af stokkunum nýjum tímaritum í opnum aðgangi og með lægri birtingagjöldum sem miða að sjálfbærara og réttlátara útgáfukerfi. Nú síðast í apríl 2023 þegar 42 ritstjórar tímaritsins NeuroImage sögðu upp og hyggjast stofna nýtt tímarit í opnum aðgangi en með mun lægri birtingagjöldum. Fræðasamfélagið, undir forystu talsmanna opins aðgangs og bókasafna, hefur einnig kallað eftir umbótum.

Alþjóðavísindaráðið (ISC) hefur sett fram átta grundvallaratriði fyrir betri framtíð vísindalegrar útgáfu. Þessi atriði mæla fyrir opnum aðgangi, strangri ritrýni, aðgangi að rannsóknagögnum við útgáfu, opnum birtingaleyfum, virðingu fyrir fræðilegum og svæðisbundnum hefðum í útgáfu, miðlun og gagnvirkni, viðhaldi skráningar og ábyrgð gagnvart vísindasamfélaginu.

Ritrýnd „preprints“ (í. forprent) hafa komið fram sem hugsanleg lausn í þróun útgáfulandslagsins. Forprent bjóða upp á skjótan, sanngjarnan og almennan opinn aðgang að rannsóknum, sem gerir höfundum með ólíkan bakgrunn og frá ólíkum landssvæðum kleift að deila verkum sínum. „Preprint“ vefþjónar, eins og arXiv, bjóða upp á vettvang til að birta forprent með DOI númerum (varanleg rafræn auðkennisnúmer). Opin ritrýni á forprent eykur trúverðugleika þeirra og gagnsæi.

Hins vegar standa forprent einnig frammi fyrir áskorunum sem tengjast gæðum, trúverðugleika og hugsanlegum rangfærslum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja stranga ritrýni og ábyrga fjölmiðlaumfjöllun um forprent til að viðhalda trúverðugleika í vísindum.

Á heildina litið er þörf á umbótum í fræðilegri útgáfu til að tryggja jafnan aðgang að rannsóknum og sanngjarna meðhöndlun vísindamanna. Opinn aðgangur, ritrýnd forprentog viðleitni ritstjóra tímarita og hagsmunahópa stuðlar í sameiningu að sjálfbærari og sanngjarnari framtíð fyrir vísindalega útgáfu.