Norræn samlög um rafrænar áskriftir styðja Fimm meginreglur LIBER um samningaviðræður við útgefendur

Á fundi stjórnarnefndar Landsaðgangs að rafrænum áskriftum í desember 2017 var samþykkt að styðja yfirlýsingu norrænna samlaga um að styðja Fimm meginreglur LIBER um samningaviðræður við útgefendur. LIBER er Samband evrópskra rannsóknabókasafna (e. Association of European Research Libraries).

Norræn samlög um rafrænar áskriftir styðja Fimm meginreglur LIBER um samningaviðræður við útgefendur

Öll norræn samlög um rafrænar áskriftir hafa undirritað yfirlýsinguna OA2020 „Yfirlýsing um áhuga á víðtækri innleiðingu Opins aðgangs að fræðitímaritum“[1] og eru að vinna að breytingu úr áskriftarmódeli vísindatímarita (e. subscription-based scholarly journal model) yfir í útgáfu í Opnum aðgangi. Samband evrópskra rannsóknarbókasafna, LIBER, hefur birt stefnuna: „Fimm meginreglur um samningaviðræður við útgefendur“[2], sem er í samræmi við stefnu OA2020.

Norrænu samlögin vilja hér með lýsa yfir stuðningi við meginreglur LIBER og stefna að því að nota þær í samningaviðræðum við útgefendur. Norðurlöndin hafa ólíkar opinberar stefnur um Opinn aðgang og þar af leiðandi eiga einstakar meginreglur LIBER misvel við eftir löndum.

Fimm meginreglur LIBER um samningaviðræður við útgefendur:

1. Samningar um aðgang og Opinn aðgangur fara saman
Áskriftarsamningar (e. subscription deals) og samningar um þjónustugjöld vegna birtinga (e. APC- article publishing charge) eru nátengdir. Ekki ætti að borga samtímis fyrir aðgang að vísindatímaritum og þjónustugjöld, það væri tvígreiðsla (e .double dipping). Sérhver nýr samningur ætti því að innihalda ákvæði um hvort tveggja. Aukin útgjöld vegna þjónustugjalda ættu að leiða til hlutfallslega lægri kostnaðar áskriftargjalda.

2. Lokaður aðgangur, engar verðhækkanir
Bókasöfn og samlög hafa árum saman greitt hækkanir, sem hafa numið allt að 8%, undir því yfirskini að veita útgefendum svigrúm til nýsköpunar. Fyrir rannsóknarsamfélagið er lykilatriði að aðgangur að niðurstöðum rannsókna sé án endurgjalds. Í viðskiptahagkerfi útgefenda (e. the system) eru þegar nægir fjármunir til innleiðingar á Opnum aðgangi. Ef ekki semst um Opinn aðgang við útgefendur, ætti ekki að samþykkja frekari verðhækkanir.

3. Gagnsæi í aðgangssamningum – engin trúnaðarákvæði
Starfshættir bókasafna og samlaga ættu að endurspeglast í stuðning þeirra við Opinn aðgang. Ekki er ásættanlegt fyrir samfélagið að samningar séu bundnir trúnaði þegar þeir eru greiddir af almannafé, eins og nýleg þróun í Finnlandi og Hollandi hefur sýnt. Því ættu aðgangssamningar við útgefendum að vera opnir öllum.

4. Tryggja þarf varanlegan aðgang
Til að komast hjá því að greiða meira fyrir aðgang og til að styðja við Opinn aðgang, hafa sum bókasöfn og samlög afsalað sér rétti til varanlegs aðgangs (e. perpetual access) að efni vísindatímarita. Í síbreytilegu umhverfi útgáfumála er brýnt að bókasöfn og samlög tryggi varanlegan aðgang að efni vísindatímarita um alla framtíð.

5. Notkunarskýrslur eiga að innihalda upplýsingar um Opinn aðgang
Þrátt fyrir að greiðslur fyrir birtingar í Opnum aðgangi verði algengari eru skýrslur um útgáfu í Opnum aðgangi ekki almennar. Rétt eins og bókasöfn og samlög fá skýrslur um notkun á tímaritum í áskrift, ættu skýrslur um birtingar í Opnum aðgangi einnig að vera fáanlegar. Það er eðlilegt að hafa innsýn í fyrir hvað er greitt.

Bibsam Consortium http://www.kb.se/bibliotek/centrala-avtal/Bibsam-Consortium/
CERES http://www.cristin.no/english/consortium/
DEFF https://www.deff.dk/english/ [Aths. ágúst 2022: búið að leggja niður og verkefnin færð til  Det Kongelige Bibliotek]
FinElib https://www.kiwi.fi/display/finelib/In+English
Landsaðgangur að rafrænum áskriftum http://hvar.is/

[1] https://oa2020.org/

[2] http://libereurope.eu/wp-content/uploads/2017/09/Open-Access-5-Principles-Statement.pdf