Skýrsla frá IAP um rányrkjutímarit og ráðstefnur

Út er komin skýrsla á vegum IAP (The InterAcademy Partnership) Science, Health, Policy sem ber heitið „Combatting Predatory Academic Journals and Conferences“ eða „Baráttan við rányrkjutímarit og ráðstefnur“. Útdráttur skýrslunnar er sannarlega verðug lesning fyrir alla rannsakendur og tengist einnig umræðunni um opinn aðgang.

Í skýrslunni kemur fram að svokölluð rányrkju- eða gervitímarit eru talin vera yfir 15.500 talsins. Kveikjan að bæði rányrkjutímaritum og ráðstefnum af sama toga eru hagnaðarsjónarmið en ekki fræðimennska. Falast er eftir greinum/útdráttum frá rannsakendum með aðferðum sem nýta sér þann þrýsting sem er á fræðimenn að gefa út og birta sem mest.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að sú ógn sem í raun stafar af þessum tímaritum og ráðstefnum hefur trúlega verið vanmetin af fjölmörgum aðilum sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Tilhneigingin hefur verið sú að líta á þau sem vandamál ungra, óreyndra vísindamanna eða fræðimanna í þróunarlöndum. Þetta viðhorf hefur mögulega aukið vöxt þessara tímarita.

Ennfremur hefur Covid heimsfaraldurinn haft áhrif og óprúttnir aðilar nýtt sér ástandið og brýna þörf á rannsóknum og lausnum.

Skýrslan er afrakstur tveggja ára rannsókna þar sem IAP (The InterAcademy Partnership) hefur verið í fararbroddi. IAP er alþjóðlegt net vísindalegra stofnana og samtaka sem vinna saman að því að takast á við alþjóðlegar áskoranir með því að nota bestu fáanlegu vísindaleg gögn. Með rannsóknunum var reynt að öðlast skilning á og greina útbreiðslu og áhrif, hvað býr að baki og mögulegar leiðir til að vinna á móti þeim.

Hér má sjá hvernig skýrslan metur tímarit:

Hér má sjá hvernig skýrslan metur ráðstefnur:

Svarendur í könnun, sem var hluti rannsóknarinnar, voru um 1800 talsins frá 112 löndum. Þar af gáfu yfir 80% þeirra til kynna að rányrkjutímarit og ráðstefnur séu nú þegar alvarlegt vandamál eða vandi í uppsiglingu í löndum þeirra. Mest ber á því í löndum þar sem tekjur fólks eru í lægri kantinum s.s. Suður-Asíu, Rómönsku Ameríku og Karíbahafinu og Afríku sunnan Sahara. Vandamálið er ekki jafn sjáanlegt í löndum ESB.

Hins vegar hafa svarendur um allan heim áhyggjur af því að smám saman grafi undan fræðilegum vinnubrögðum og trúverðugleika rannsókna með skaðlegum afleiðingum.

Í lok skýrslunnar eru teknar saman niðurstöður og gerðar tillögur til úrbóta sem er verðugt lesefni fyrir alla rannsakendur.
Údráttur skýrslunnar.