Opinn aðgangur og hremmingar heimsins

Ebólavírus

Ef eitthvað má læra af heimsfaraldri og kreppuástandi í kjölfarið er það án efa hversu miklu máli skiptir að hafa opinn aðgang að upplýsingum. Þegar samfélög og hagkerfi heimsins verða fyrir slíkum skakkaföllum sem COVID-19 hefur valdið, þarf aðgangur að staðreyndum og tölum að vera greiður. Við þurfum að vita hvað er að gerast í heiminum; við þurfum aðgang að þekkingu sem gerir sérfræðingum okkar kleift að leita lausna til að koma okkur út úr ástandinu.

Þegar fréttir tóku að berast um hinn dularfulla og smitandi vírus um áramótin 2019-20, voru heilbrigðisyfirvöld fljót að bregðast við. Vísindamenn um allan heim kepptust við að finna bóluefni og nutu góðs af ákvörðun vísindamanna í Kína um að deila upplýsingum varðandi erfðakóða sjúkdómsins án allra takmarkana. Upplýsingarnar voru opnar öllum og tekist var á við vandann af þúsundum rannsakenda um allan heim.

Stjórnvöld gerðu einnig rannsóknaniðurstöður opinberar sem styrktar höfðu verið af opinberu fé. Ef leitað er að „COVID-19“ er auðveldlega hægt að lesa nýjustu ritrýndu niðurstöðurnar um þennan vírus sem við vissum ekkert um fyrr en árið 2020.

Við getum sameinað kraftana þegar á reynir. Og fundið lausnir sem nýtast öllum.

Úr New York Times, 2015

Árið 2015, birtist opið bréf í New York Times undir yfirskriftinni „Yes, We Were Warned about Ebola“. Undir bréfið ritaði hópur háttsettra vísindamanna þar á meðal landlæknir Líberíu. Hópurinn benti á að hægt hefði verið að koma í veg fyrir skelfilega útbreiðslu ebólu. Bent var á að árið 1982 hefði faraldrinum verið spáð en sú rannsókn var birt í áskriftartímariti með takmarkaða útbreiðslu. Það skorti á að nægilega margir hefðu aðgang að upplýsingunum til að fræðast um hættuna og að framkvæma í framhaldinu frekari rannsóknir til að vinna að því að koma í veg fyrir vandann.

Trúlega þurfum við nokkur ár í viðbót til að átta okkur á þeim glundroða og skaða sem COVID-19 heimsfaraldurinn hefur valdið, en það er mikilvægt að við lærum af mistökum okkar. Ef hægt er að leiða saman hagsmunaaðila frá öllum heimsálfum og úr öllum atvinnugreinum og sameinast um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum varðandi COVID-19, hvers vegna er ekki hægt að gera það sama varðandi rannsóknir á loftslagsbreytingum, krabbameini, félagslegum ójöfnuði og fæðuöryggi? Öll þessi mikilvægu mál ásamt fleirum munu fela í sér miklar áskoranir fyrir heilsu manna og framtíð okkar á þessari plánetu næstu áratugi.

Þýtt og endursagt úr bókinni Plan S for Shock
https://library.oapen.org/handle/20.500.12657/52946 (opinn aðgangur)

Mynd: Ebólavírus
Mynd frá NIAID (The National Institute of Allergy and Infectious Diseases)
Leyfi: https://creativecommons.org/licenses/by/2.0/