CRAFT-OA verkefnið og „demantaleiðin“

Demantaleiðin (Diamond Open Access) er opinn aðgangur þar sem engin þjónustugjöld vegna birtinga leggjast á höfunda eða styrktveitendur. Höfundur heldur að jafnaði höfundarréttinum í stað þess að framselja réttinn til útgefanda eins og í hefðbundinni útgáfu. Fjölmörg ritrýnd gæðatímarit eru í opnum aðgangi.

Háskólinn í Göttingen mun leiða athyglisvert ESB-verkefni með 23 samstarfsaðilum í 14 Evrópulöndum frá og með janúar 2023. Markmiðið er að efla og þróa tímaritaútgáfu stofnana í Evrópu með því að nota líkan sem kennt hefur verið við „Diamond Open Access“. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur styrkt verkefnið „Creating a Robust Accessible Federated Technology for Open Access (CRAFT-OA)“ til þriggja ára og veitti samtals 4,8 milljónum evra.

Með því að bjóða upp á sértæka tæknilega þjónustu og verkfæri fyrir allan feril tímaritaútgáfu gerir verkefnið staðbundnum og svæðisbundnum kerfum og þjónustuaðilum í þessum geira kleift að auka og bæta fagmennsku varðandi innihald, þjónustu og kerfi. Þannig verður auðveldara að tengja þjónustu þeirra við önnur upplýsingakerfi í vísindum. Einnig mun þetta auðvelda starf vísindamanna og fræðimanna sem taka þátt í þessu líkani.

Í verkefninu er lögð áhersla á fjóra þætti:

   • tæknilegar endurbætur á útgáfukerfum tímarita og hugbúnað
   • uppbygging virkra samfélaga
   • aukinn sýnileiki, finnanleiki og viðurkenning á Diamond OA útgáfum
   • samþætting við Evrópska opna vísindaskýið (EOSC) og aðra stóra aðila á sviði gagnasafna.

CRAFT-OA býður verkfæri, námskeið og námsefni, upplýsingar og þjónustu. Verkefnið miðar að því að hlúa að útgáfuaðilum og samfélögum þeirra til að tryggja að árangur verkefnisins endist fram yfir lok þess.

„Það eru óteljandi tímarit í opnum aðgangi sem vinna hörðum höndum að því að gera samfélögum sínum og fræðasviðum kleift að birta í Diamond Open Access,“ útskýrir Margo Bargheer verkefnisstjóri í ríkis- og háskólabókasafninu í Göttingen (SUB). „Verkefnið okkar gefur þeim tækifæri til að njóta góðs af þróunarvinnu og þjónustu hvers annars, en síðast en ekki síst að njóta góðs af sameiginlegri sérfræðiþekkingu og sterku tengslaneti á sviði faglegrar útgáfu til að ná auknu samræmi í starfsemi tímaritanna.

CRAFT-OA tengist öðrum evrópskum verkefnum sem einnig þróa Diamond Open Access. CRAFT-OA einbeitir sér aðallega að tækniþróun og umbótum, DIAMAS verkefnið stuðlar að Diamond Open Access varðandi hluti sem ekki varða tækni, þar á meðal með stofnun miðstöðvar og tengslum hagsmunaaðila. PALOMERA verkefnið rannsakar einnig fræðileg samskipti stofnana, en öfugt við tímarit beinist það að bókum og sérstaklega að stefnumörkun fyrir bækur.

Þýtt og endursagt: Improving Diamond Open Access across Europe úr  idw-online.de.