Kanada: Kennslubækur og námsgögn í opnum aðgangi

Kennslubækur í opnum aðgangi – British Columbia, Kanada

Eitt af því sem blómstrað hefur undanfarin ár, er útgáfa kennslubóka í opnum aðgangi í ýmsum löndum. Það hefur sparað nemendum ómældar fjárhæðir og veitt háskólum möguleika á sveigjanlegu efni sem má aðlaga, þar sem vel skilgreind notkunarleyfi auðvelda málin.

Allir ættu að kannast við DOAJ (The Directory of Open Access Journals) þar sem skráð eru allt að 19.000 tímarit í opnum aðgangi með milljónum greina sem gegna afar mikilvægu hlutverki – ekki aðeins við miðlun þekkingar heldur nýtast einnig sem námsefni háskóla. Hér er freistandi að nefna að árið 2020 fékk Selkirk College í Kanada viðurkenningu fyrir „Open First!“ nálgun, en opin námsgögn hafa forgang í námskrá skólans.

Samhliða útgáfu rannsóknarniðurstaðna í opnum aðgangi hefur verið mikill vöxtur í opnu námsefni og kennslubókum sem stjórnvöld hafa styrkt; stjórnvöld sem viðurkenna ávinninginn af því að fjárfesta í kennsluefni sem hægt er að afrita, aðlaga og dreifa án frekari leyfiskostnaðar.  Módelið sem stuðst er við, felur að jafnaði í sér fyrirframgreiðslu fyrir efnissköpun (oft með styrkjum) með því skilyrði að notendaleyfið sem fylgir verkunum leyfi að fullu frjálsa og opna notkun. Talsmenn höfundaréttar viðurkenna helst ekki þetta efni sem vissulega felur í sér veruleg opinber útgjöld fyrir ritun/sköpun efnisins, en leiðir jafnframt til langtímasparnaðar fyrir menntastofnanir og nemendur þeirra.

Ríkisstjórn Ontario fylkis í Kanada hefur til að mynda veitt fjármagni til menntastofnana til að búa til námsefni í opnum aðgangi. Þar má nefna eCampusOntario Virtual Learning Strategy (VLS) sem snýr að framhaldsnámi í Ontario. Þar urðu til hundruðir nýrra námskeiða og gagna.

Ecampus – Ontario Kanada

Annað sem nefna má frá Kanada er Open Education Alberta (rekið af háskólanum í Alberta), sem býður upp á 39 opnar leiðir í gegnum samstarf við fimm háskóla, þrjá framhaldsskóla og fjórar aðrar menntastofnanir.

Síðast en ekki síst er vert að minnast á BC Campus  í British Columbia  þar sem finna má hundruðir kennslubóka í opnum aðgangi og það gæti verið forvitnilegt fyrir íslenskar menntastofnanir að skoða.

Einn skýrasti ávinningurinn við þennan opna aðgang er að sjálfsögðu  hinn mikli sparnaður sem nemendur njóta.. Á árunum 2020/21 notuðu um 9.000 nemendur við háskólann í Saskatchewan, Kanada,  opnar kennslubækur í stað annarra á hefðbundnum markaði, sem sparaði þeim um 800.000 Bandaríkjadali samanlagt. Síðan háskólinn í British Columbia hóf að styrkja útgáfu kennslubóka í opnum aðgangi árið 2014 hafa nemendur sparað meira en 2,5 milljónir Bandaríkjadala, einungis í þessum eina háskóla.

Þess má geta að fjárfestingar á þessu sviði halda áfram í Kanada.

Byggt á Canadian Copyright, Fair Dealing and Education, Part Five: Open Textbooks Saving Students Millions of Dollars eftir Michael Geist, 28. febrúar 2023.