Málþing um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum

Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum þann 15. nóvember næstkomandi milli 12 og 14 í Þjóðminjasafninu.

Opinn aðgangur (e. open access) er þekkt hugtak í umræðunni um rannsóknir og birtingar fræða- og vísindafólks og snýst um óheftan aðgang almennings, nemenda háskóla og fræða- og vísindafólks um allan heim að rannsóknarniðurstöðum sem unnar hafa verið fyrir almannafé. Þetta geta verið rannsóknir styrktar með fé úr opinberum sjóðum eða fé sem rennur til háskólanna af fjárlögum og fer að hluta til rannsóknarstarfa innan þeirra. Hugmyndafræðin um opinn aðgang er í grunninn einföld en krefst samtals innan vísindasamfélagsins því sú breyting sem hlýst af víðtækum opnum aðgangi veltir af stað menningar- og kerfisbreytingu sem mun hafa áhrif á störf vísindafólks hvarvetna.

Frummælendur verða Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona bókasafns og upplýsingaþjónustu Háskólans í Reykjavík, Sigurbjörg Jóhannesdóttir verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands og Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri hjá Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni. Í pallborði bætast við Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Einar Karl Friðriksson, efnafræðingur og einkaleyfaráðgjafi og Sóley Morthens þróunarstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun.

Fundarstjóri verður Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Aðgangur er opinn og öllum heimill

sjá viðburð á facebook: https://www.facebook.com/events/592290041531501/

Erindi um opinn aðgang – Breytingar á birtingum fræðilegra skrifa

Erindi um opinn aðgang – Breytingar á birtingum fræðilegra skrifa: þróun á Norðurlöndum – Nina Karlstrøm (Head of Section for License Agreements and Open Access at Unit Norway)

Mánudaginn 13. maí mun Nina Karlstrøm flytja erindi um opinn aðgang (open access) á vegum NOS-HS.

NOS-HS er samstarfsvettvangur í hug- og félagsvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum.

Erindið verður haldið í fyrirlestrarsal Landsbóksafns Íslands – Háskólabókasafns (Þjóðarbókhlöðu) mánudaginn 13. maí kl.12:00-13:00.

Erindið nefnist: Breytingar á birtingum fræðilegra skrifa: þróun á Norðurlöndum  (The changing landscapes of academic publications and where the Nordic countries are heading in that respect)  

Nina Karlstrøm er yfir samninganefndinni sem gerði nýlega svokallaðan „Publish & read“ samning við útgáfurisann Elsevier.

Erindið er opið öllum.

Sjá vðburð á Facebook: https://www.facebook.com/events/413360589247758/

 

Sögulegt yfirlit um opinn aðgang

Jean Claude Guédon prófessor við Montréal háskóla í Kanada og einn af höfundum Búdapestyfirlýsingarinnar, hélt nú á dögunum sérdeilis gott erindi um sögu opins aðgangs í samhengi við sögu og útgáfu vísindatímarita. Erindið var haldið á ráðstefnu í París sem Alþjóðamiðstöð ISSN stóð fyrir nú í apríl.  Í erindinu er farið vandlega yfir sögu prentaðra vísindatímarita, ástæðu samþjöppunar á útgáfumarkaðinum, upphaf áhrifastuðulsins ISI, aukins áskriftarkostnaðar tímarita sem bókasöfn og háskólar standa fyrir og hugsanlegar ástæður þess að opinn aðgangur á vísindaefni er komin svo skammt á veg sem raun ber vitni.

Á ráðstefnunni voru einnig mörg önnur fróðleg erindi um opinn aðgang, þau má nálgast á slóðinni: https://webcast.in2p3.fr/container/issn-conference-2018