Fréttir af ráðstefnunni Paris Open Science Conference 4. – 5. febrúar 2022

Ráðstefnan Paris Open Science Conference  var haldin dagana 4. – 5. febrúar sl. Alls sóttu ráðstefnuna um 2000 manns en hún fór að þessu sinni alfarið fram á netinu.

Fyrirlesarar á Paris Open Science Conference

Fyrirlesarar á Paris Open Science Conference (2)

Meðal fyrirlesara voru franskir ráðherrar, forsvarsmenn háskóla í Evrópu, embættismenn frá UNESCO, forsvarsmenn rannsóknastofnana og vísinda í Evrópu og margir fleiri.

Frédérique VIDAL, franskur ráðherra háskóla, rannsókna og nýsköpunar
Frédérique VIDAL setti ráðstefnuna, franskur ráðherra háskóla, rannsókna og nýsköpunar.

Ráðstefnan var yfirgripsmikil. Mikið var fjallað um mat á rannsóknum (e. research assessment) og sömuleiðis skjalið Paris Call on Research Assessment . Texti þess var unninn af nefnd Frakka um opin vísindi  og kynntur sérstaklega á ráðstefnunni.

Þess má geta að ráðstefnan var skipulögð í tengslum við formennsku Frakklands í ráði ESB og í kjölfar útgáfu á tilmælum UNESCO um opin vísindi og útgáfu framkvæmdastjórnar ESB á skýrslunni Towards a reform of the research assessment system: scoping report. Það eru einmitt opin vísindi sem drífa áfram umræðuna um mat á rannsóknum.

Stefnan er sett á meiri gæði rannsókna; það er of mikið af rannsóknum sem ekki er hægt að endurgera þar sem gögn og skýringar vantar. Ákall er eftir “Quality over quantity”.

Lagt er til…

      • Að rannsóknir séu skráðar áður en þær hefjast (meiri gæði í skráðum)
      • Að horfið sé frá áhrifastuðli tímarita (e. Impact Factor) og H-index sem mælitækjum og unnið verði að upptöku annars konar mælikvarða með þátttöku rannsakenda
      • Að koma á e.k. hvatningu, t.d. með merkingum (e. badges) til þeirra sem stunda opin vísindi
      • Að rannsóknir sem ekki ná að uppfylla það sem upp var lagt með séu líka birtar (e. negative findings) – ekki eingöngu sérvaldar rannsóknir (e. selective reporting)

Gengið var svo langt að segja að um að 85% af rannsóknum í heilbrigðisvísindum væri sóað (e. wasted).

Einnig er lagt til að breytt sé um stefnu í ráðningum við háskóla; þar sé horft til fleiri þátta en birtra greina og áhrifastuðli tímarita sem þær birtast í. Litið verði til annarra hlutverka vísindamanna sem kennara, leiðtoga o.fl. sem og þátttöku í opnum vísindum.  Þarna eru Hollendingar og hollenskir háskólar komnir töluvert á veg. En margt strandar á rannsakendum sjálfum.

Nú tekur lengri tíma en nokkru sinni að gefa út grein þrátt fyrir stafræna byltingu. Fullyrt er að framhaldsnemar í háskóla eru ári lengur að fá greinar samþykktar en áður. Til að finna lausn er m.a. rætt um birtingu á óritrýndum handritum sem send hafa verið í útgáfu (e. Preprint) og í kjölfarið komi ritrýni (e. preprint – then review!) og að þau megi setja á ferilskrá.

Til fróðleiks má geta þess að 62% af frönskum vísindagreinum voru gefnar út í opnum aðgangi árið 2020. Í S-Ameríku er löng hefð fyrir að gefa nánast eingöngu út í opnum “Diamond” aðgangi en hann var einmitt sérstaklega til umræðu. Þar er um að ræða opinn aðgang þar sem hvorki rannsakendur né lesendur greiða fyrir. Of lítið er hugað að honum, en hann byggir á:

      • Sjálfboðaliðum
      • Stuðningi stofnana
      • Styrkjum

Kynnt var aðgerðaáætlun fyrir Diamond opinn aðgang af hálfu cOAlition S. Til þess að hægt sé að koma slíku á þarf meira samtal og skuldbindingu af hálfu

      • rannsakenda
      • rannsóknarsjóða
      • rannsóknarstofnana
      • háskólabókasafna, háskólaútgáfa
      • fræðilegra samtaka
      • ráðuneyta

Á ráðstefnunni var talað sérstaklega um að leggja þurfi áherslu á fjöltyngi og að ekki þurfa allar rannsóknaafurðir að vera á ensku. Þær megi vera á öðrum tungumálum og hægt verði að notast við vélrænar þýðingar að hluta. Þess ber að geta að um  helmingur Evrópubúa getur ekki tjáð sig vel á öðru tungumáli en þeirra eigin. Tekið er skýrt fram að gæði rannsókna fari ekki eftir tungumálinu sem rannsóknarniðurstöður eru birtar á, hvort sem um er að ræða ensku eða staðbundin tungumál (e. The quality of research does not depend on publication in English or local languages.”).