Opinn aðgangur vs. opið á netinu

Opinn aðgangur (e. Open Access) þýðir í raun tvennt.  Efnið er opið á netinu án endurgjalds fyrir notandann og það eru skýrar aðgangs-/höfundarréttarheimildir sem fylgja með efninu (gjarnan CC leyfi). Seinna atriðið er afar mikilvægt þar sem það tryggir að efnið er opið á netinu um ókomna tíð samkvæmt leyfinu.

Efni sem er opið á netinu getur verið opið af ýmsum ástæðum. Það er opið án aðgangs/höfundarréttarheimilda, það er tímabundið opið eða búið er að borga fyrir að það sé opið á ákveðnum IP tölum (t.d. í gegnum Landsaðgang eða annarskonar rafrænar áskriftir). Enginn trygging er fyrir því að efnið verði opið í framtíðinni.

Hvað varðar Landsaðgang og rafrænar áskriftir væri nær að kalla það keyptan aðgang þar sem búið er að kaupa aðgang fyrir notendann að efninu og því er aðgangur ekki ókeypis.  Landsaðgangur kostar t.a.m. íslenska ríkið í kringum 200 milljónir ár hvert (sjá nánar Landsaðgangur, ársskýrslur).

Opinn aðgangur er alltaf gjaldfrjáls fyrir notandann.

Rafrænar bækur í opnum aðgangi á leitir.is

Í gagnagrunn leitir.is er búið að bæta við meira en 19 þúsund ritrýndum rafbókum hjá DOAB – Directory of Open Access Books í opnum aðgangi. Meðal útgefenda eru fræðafélög, háskólaútgáfur og viðurkenndir úgefendur vísindaefnis. Hægt er að hlaða niður einstökum bókaköflum eða rafbókinni í heild sinni.

Hlutverk DOAB, er að gera ritrýndar, akademískar rafbækur í opnum aðgangi sýnilegar og aðgengilegar. DOAB er á vegum OAPEN stofnunarinnar og er hýst í Landsbókasafninu í Hague. DOAB er styrkt af útgáfunum; BRILL, Springer Nature og De Gruyter en í gagnasafni DOAB eru rafbækur frá fleiri útgefendum og þar á meðal háskólaútgáfum og fræðafélögum. DOAB vann IFLA/Brill Open Access award 2015.

Einföld leið til að nálgast löglegar útgáfur vísindagreina

Miðlun á vísindaefni er að breytast mikið um þessar mundir.  Æ fleiri háskólar og samlög um rafrænar áskriftir að tímaritum hafa sagt upp samningum sínum um við Elsevier og aðra stóra útgefendur á vísindalegu efni, nú síðast frændur okkar Svíar. Ástæður eru síhækkandi áskriftargjöld og há þjónustugjöld vegna birtinga (Article Processing Charges).

Þrátt fyrir að Evrópusambandið og fleiri hafa sett sér háleit markmið um opinn aðgang að vísindaniðurstöðum er enn langt í land hvað það varðar.

Sci-Hub er sjóræningja síða þar sem að nálgast má yfir 60 milljón vísindagreina, sem fengnar eru með ólöglegum hætti framhjá rándýrum gjaldveggjum (e. paywalls).  Segja má að Sci-Hub sé bein afleiðing þess hversu seint hefur gengið að uppfylla markmiðið um opinn aðgang og hversu kostnaðarsamt það getur verið að fá heildartexta að greinum. Eitt af því sem er heillandi við Sci-Hub er hversu einfalt er að nálgast heildartexta þaðan. Með einum smelli er notandinn kominn strax í heildartexta greinarinnar.  Ef löglegar leiðir eru farnar í gegnum rafrænar áskriftarleiðir háskólabókasafna eru smellirnir yfirleitt mun fleiri. Nokkrar rannsóknir hafa einmitt sýnt að vísindamenn nota Sci-Hub ekki eingöngu til að lesa greinar sem þeir hafa ekki aðgang að heldur einnig vegna þægindanna og einfaldleikans (sjá t.d. hér).

Á undanförnum misserum hafa komið fram á sjónarsviðið þrjár ólíkar útfærslur sem byggja á einfaldleika Sci-Hub: Open Access ButtonUnpaywall og Kopernio. Nálgast má löglegar útgáfur vísindagreina með einum smelli. Þetta er gert með því að leita m.a. í rafrænum varðveislusöfnum eins og Opnum vísindum, Google ScholarPubMed og víðar. Notendur hlaða niður viðbót á vafrann sinn og geta þar með leitað að greinum á einfaldan og fljótlegan hátt.

Athugið að þetta eru ekki uppgötvunartól (e. discovery tool) heldur er þetta hugsað þegar nákvæmlega er vitað hvaða efni þarf nálgast.

Kopernio var nýlega keypt af Clarivate sem reka Web og Science og ISI áhrifastuðulinn.