Þýskaland og opinn aðgangur (OA)

Mynd: The States of Germany. Ljósmyndari: James Martin

Þýskaland hefur ekki samræmda stefnu um opinn aðgang á landsvísu, en OA menning er þar samt sem áður vel á veg komin. Mikið er um frumkvæði stofnana og samtaka sem sem styðja OA og þróun öflugra áætlana í þessum efnum.

Landið er leiðandi í alþjóðlegu samstarfi og samvinnu á milli stofnana. Nálgunin er í þá átt að nota tilmæli í stað tilskipana varðandi OA. Lesa áfram „Þýskaland og opinn aðgangur (OA)“

CC afnotaleyfi – bæklingur á íslensku

Kominn er út bæklingurinn Leiðbeiningar um afnotaleyfi frá Creative commons fyrir fræðilega útgáfu og fræðsluefni.  Hann á vonandi eftir að nýtast vel og auka skilning og vitneskju um þýðingu slíkra afnotaleyfa.

Til hliðsjónar var bæklingurinn Creative Commons for Scholarly Publications and Educational Resources eftir Pascal Braak, Hans de Jonge, Giulia Trentacosti, Irene Verhagen og Saskia Woutersen-Windhouwer (2020). Þýðingu, styttingu og aðlögun önnuðust Margrét Gunnarsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Bæklingurinn sjálfur er undir Creative Commons Attribution-4.0 leyfi: https://creativecommons.org/licenses/by/4.0 nema annað sé tekið fram.

Birting í tímaritum frá Sage

Landssamningur við Sage

Í gildi er samningur um opinn aðgang (e. transformative agreement) að tímaritum útgáfufyrirtækisins Sage sem gefur út tímarit á sviði félags-, hug-, heilbrigðis- og lífvísinda.

Samningurinn felur í sér að fram til 31. desember 2025 þurfa íslenskir vísindamenn sem tengjast íslenskri stofnun og vilja birta greinar í sk. blönduðum  tímaritum (e. hybrid journals) Sage, ekki að greiða birtingagjöld. Ef ætlunin er að fá birtar greinar í tímaritum sem eru í opnum aðgangi samkvæmt Gylltu leiðinni (e. Gold Open Access) þá er hægt að fá 20% afslátt af birtingagjöldum (eða hærri afslátt sé hann í boði). Þetta á við í því tilfelli að handrit séu samþykkt til birtingar.

Höfundar sem að tengjast íslensku stofnunum og hafa vinnutengd tölvupóstföng eru gjaldgengir til að birta greinar í tímaritum í Premier 2019 tímaritapakka sem er í landsaðgangi.

Helstu atriði samningsins við Sage:

      • Greinar í opnum aðgangi eru samkvæmt CC-BY birtingarleyfum. Sjálfgefin (e. by default) stilling við innsendingar greina í kerfum Sage er CC BY NC birtingarleyfi.
      • Höfundar halda höfundarétti sínum og framselja hann ekki til útgefenda (e. non-exlusive rights).
      • Umsjónarmaður Landsaðgangs mun staðfesta við útgefanda að höfundar tengist íslenskum stofnunum og eigi rétt á að fá birtingu á greinum í opnum aðgangi samkvæmt samningnum.
      • Höfundar greina sem birtast í opnum aðgangi geta vistað „post-print“ útgáfu í varðveislusafni – opinvisindi.is. Græna leiðin (e. Green Open Access).