Til umhugsunar: Aðgengi og aðgengileiki

Vefurinn arXiv.org hefur verið brautryðjandi í tengslum við opinn aðgang í meira en 30 ár og fjarlægt ýmis konar hindranir fyrir rannsóknagreinar. Engir greiðsluveggir eða gjöld og ekki þarf innskráningu til að lesa greinar. Þessi nálgun – sem veitir rannsakendum hámarksstjórn á birtingu niðurstaðna sinna og sýnileika – umbreytti rannsóknarferlinu og varð upphaf að hreyfingunni um opinn aðgang.

Aðgengi er hins vegar ekki það sama og aðgengileiki þ.e. að tryggja aðgengi óháð fötlun. Langflestar rannsóknargreinar,  sem birtar eru í hvaða tímariti sem er og á hvaða vettvangi sem er,  uppfylla ekki grunnstaðla varðandi aðgengileika.

Á árinu 2022 stóð arXiv fyrir ítarlegri notendarannsókn til að ákvarða umfang vandans, meta mótvægisaðgerðir sem í gangi eru og skoða lausnir. Niðurstöðurnar, sem unnar voru af starfsfólki arXiv, aðgengissérfræðingum og arXiv lesendum og höfundum sem nota hjálpartækni, eru birt á arXiv á PDF-sniði  og HTML-sniði.

Þáttakendur í rannsókninni deildu í ítarlegum viðtölum reynslu sinni af hindrunum sem birtast við hvert skref í rannsóknarferlinu; við leit að rannsóknum, við lestur þeirra, við undirbúning skjala og innsendingu greina. Erfiðast er að skoða stærðfræðiformúlur, myndir og línurit/gröf. Þetta er sem dæmi mjög erfitt fyrir fólk með lestrarörðugleika s.s. sjónskerðingu, blindu og lesblindu.

Sveigjanlegt innihald getur hjálpað til við þessi vandkvæði. Það er mjög til bóta þegar boðið er upp á vel skilgreint HTML-snið ásamt PDF- og TeX-sniði. ArXiv hefur þegar tekið tillit til þessa á sínum vef og unnið að endurbótum.

Þetta er án efa mál sem mun bera oftar á góma í framtíðinni. PDF-sniðið er að sönnu orðið afar algengt og þekkt. Það krefst hins vegar sérhæfðrar þekkingar og verkfæra sem greiða þarf fyrir til að gera PDF-skjöl þannig úr garði að fólk með e.k. skerðingu geti haft mun betra gagn af sniðinu.

Byggt  á greininni Access is not the same as accessibility: A framework for making research papers truly open frá 19. janúar 2023 á arXiv.org blog