Opinn aðgangur að niðurstöðum rannsókna

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að stefnu um opinn aðgang. Í desember 2019 skilaði verkefnishópur á vegum ráðuneytisins, sem starfar í samræmi við aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs um opin vísindi, fyrri skýrslu sinni um tillögur um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna.

Skýrslan var til umsagnar á sl. ári í samráðsgátt stjórnvalda og nú er búið að birta lokaniðurstöðuna í samráðsgáttinni. Ein umsögn barst, frá Háskóla Íslands.

Í niðurstöðum segir meðal annars:

„Ráðuneytið vinnur nú að stefnu á grundvelli skýrslunnar með það að markmiði að stuðla að því að rannsóknarniðurstöður sem greiddar eru fyrir opinbert fé séu aðgengilegar á rafrænu formi án endurgjalds svo að flestir geti nýtt sér niðurstöður þeirra. Með opnum aðgangi að
rannsóknargögnum er stuðlað að útbreiðslu þekkingar og nýtingu hennar í samfélaginu, en
jafnframt verið að efla gæði rannsókna. Með því að opna aðgang skapast ábati fyrir allt
samfélagið, hraðar vexti þess og hvetur til nýsköpunar. Vakin er athygli á að samþykkt hefur
verið ný vísinda- og tæknistefna 2020-22 þar sem er meðal annars að finna aðgerðir sem fela í sér næstu skref í átt að opnum vísindum.“