Preprints (forprent) – já eða nei

Preprints - forprentGerð var könnun meðal rannsakenda sem áttu greinar sem út  komu 2021 og 2022 og skráðar voru í Web of Science. Þýðið voru þeir höfundar sem önnuðust bréfaskipti (e corresponding authors) og slembiúrtak tekið úr þeirra hópi. Rannsakendur komu frá Kína, Bandaríkjunum, Evrópu og öðrum löndum.

Könnunina má lesa hér:
To Preprint or Not to Preprint: Experience and Attitudes of Researchers Worldwide

Könnuð var reynsla rannsakenda af lestri og birtingu forprenta, skoðanir þeirra varðandi kosti og galla forprenta og leiðir til að efla forprent.

Ljóst er að Bandaríkin og Evrópa þekkja betur forprent og nota þau meira en Kína. Helstu kostir forprenta þóttu vera ókeypis aðgengi, ókeypis birting og meiri hraði í  samskiptum sem varða rannsóknirnar.

Svarendur frá Kína lögðu áherslu á ávinninginn af því að koma á forgangi uppgötvunar.

Svarendur í Bandaríkjunum höfðu áhyggjur af ótímabærri fjölmiðlaumfjöllun, áreiðanleika og trúverðugleika forprenta, á meðan svarendur í Kína höfðu áhyggjur af skorti á viðurkenningu og hættu á stuldi.

Bent var á að góð leið til að styrkja forprent væri að innleiða þau sem hluta af innsendingu greina í tímarit.

Takmarkanir könnunarinnar sem hér er lýst gætu verið hugsanlegt ofmat á stuðningi við forprent, of margir reyndir rannsakendur sem svöruðu og munur á svarhlutfalli milli landa.