UNIT gerir „Publish & Read“ samning við Elsevier

UNIT, norskt samlag um æðri menntun og rannsóknir, sem m.a. sjá um samninga um tímaritaáskriftir fyrir hönd 39 norskra háskólabókasafna og rannsóknarstofnanna, hafa gert svokallaðan „Publish & Read“ samning við Elsevier. Samningurinn er af svipuðum toga og Projekt Deal samningurinn við Wiley frá því í janúar. Forsaga málsins er sú að í mars slitnaði uppúr samningaviðræðum milli UNIT og Elsevier um áframhald á hefðbundnum tímaritaáskriftarsamningi. Í þessum nýja samningi felst að aðilar að UNIT hafa aðgang að tímaritum hjá Elsevier en borga um leið fyrir birtingu í opnum aðgangi. Áður fyrr var greitt fyrir þetta í tvennu lagi. Þó þetta komi í veg fyrir tvöfaldan kostnað (double dipping) bókasafnanna er ýmislegt gagnrýnivert varðandi samninginn. Jon Tennant bendir á að samningurinn hljóði uppá 9 milljónir evra, en það er 3% aukning frá síðasta tímaritaáskriftasamningi Að hans mati eru Norðmennirnir í raun að borga 9 milljónir evra fyrir upphefðina að fá að birta í tímaritum á vegum Elsevier. Þetta hafi ekkert að gera með raunverulegan kostnað við útgáfu á vísindaefni né mikilvægi þess og sýni hversu valdahlutföllin milli höfunda og útgefanda vísindaefnis séu í miklu ójafnvægi.

Tímamótasamningur

 

Projekt Deal er samstarfsverkefni ýmissa háskóla og vísindastofnanna í Þýskalandi og gengur út á að segja upp stórum tímaritaáskriftum við stóra útgefendur eins og Wiley, Elsevier o.fl. og og gera í staðinn svokallaða „Publish & Read“ samninga.

Þann 15. janúar síðastliðinn var undirritaður tímamótasamningur milli Projekt Deal og útgáfurisans Wiley. Samningurinn gengur út frá „Publish & Read“ módelinu og er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Samningurinn snýst í stuttu máli um að aðilar að Deal munu geta gefið út vísindagreinar í tímaritum Wiley í opnum aðgangi án aukakostnaðar og einnig er tryggður aðgangur að rafrænum tímaritum útgefandans frá árinu 1997.


 

Alþjóðleg vika opins aðgangs 22. – 28. október

 

Alþjóðleg vika opins aðgangs er nú haldin í 11. skipti. Þema vikunnar í ár er „Designing Equitable Foundations for Open Knowledge“ sem á íslensku mætti útleggja sem mótun sanngjarnra grunnstoða fyrir opin vísindi. Íslensk háskólabókasöfn taka þátt í vikunni í ár með ýmsum hætti, má þar helst nefna sýningu á heimildarmyndinni Paywall: the business of scholarship en einnig með því að vekja athygli á opnum aðgangi á samfélagsmiðlum og innan veggja háskólanna. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um opinn aðgang þá má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar á openaccess.is og einnig má benda á ýmiskonar fræðslu á heimasíðu OpenAire fyrir þá sem vilja kafa dýpra.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun sýna Paywall: the business of scholarship miðvikudaginn 24. október í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu kl. 10:30-12:00.

http://openaccess.is/

http://openaccessweek.org/

https://www.openaire.eu/open-access-week-2018