Val á tímariti fyrir rannsóknaniðurstöður: Gátlisti

Í greininni Choosing a journal for your research: Checklist for researchers and librarians eru góðar leiðbeiningar fyrir bæði rannsakendur og upplýsingafræðinga um hvernig best sé að velja viðeigandi tímarit fyrir rannsóknaniðurstöður.

Val á tímariti er mikilvægt mál fyrir rannsakendur sem bæði vilja tryggja tímanlega og víðtæka miðlun rannsóknaniðurstaðna sinna sem og að uppfylla kröfur sem stofnanir þeirra og/eða styrkveitendur gera um birtingu.

Gátlistinn byggir á Diamond OA Standard (DOAS), staðli sem þróaður er af Developing Institutional Open Access Publishing Models to Advance Scholarly Communication (DIAMAS) verkefninu, og Think Check Submit (Hugsaðu – kannaðu – sendu inn) gátlistanum.

Nánar hér: Choosing a journal for your research: Checklist for researchers and librarians.

Birting í tímaritum frá Sage

Landssamningur við Sage

Í gildi er samningur um opinn aðgang (e. transformative agreement) að tímaritum útgáfufyrirtækisins Sage sem gefur út tímarit á sviði félags-, hug-, heilbrigðis- og lífvísinda.

Samningurinn felur í sér að fram til 31. desember 2025 þurfa íslenskir vísindamenn sem tengjast íslenskri stofnun og vilja birta greinar í sk. blönduðum  tímaritum (e. hybrid journals) Sage, ekki að greiða birtingagjöld. Ef ætlunin er að fá birtar greinar í tímaritum sem eru í opnum aðgangi samkvæmt Gylltu leiðinni (e. Gold Open Access) þá er hægt að fá 20% afslátt af birtingagjöldum (eða hærri afslátt sé hann í boði). Þetta á við í því tilfelli að handrit séu samþykkt til birtingar.

Höfundar sem að tengjast íslensku stofnunum og hafa vinnutengd tölvupóstföng eru gjaldgengir til að birta greinar í tímaritum í Premier 2019 tímaritapakka sem er í landsaðgangi.

Helstu atriði samningsins við Sage:

      • Greinar í opnum aðgangi eru samkvæmt CC-BY birtingarleyfum. Sjálfgefin (e. by default) stilling við innsendingar greina í kerfum Sage er CC BY NC birtingarleyfi.
      • Höfundar halda höfundarétti sínum og framselja hann ekki til útgefenda (e. non-exlusive rights).
      • Umsjónarmaður Landsaðgangs mun staðfesta við útgefanda að höfundar tengist íslenskum stofnunum og eigi rétt á að fá birtingu á greinum í opnum aðgangi samkvæmt samningnum.
      • Höfundar greina sem birtast í opnum aðgangi geta vistað „post-print“ útgáfu í varðveislusafni – opinvisindi.is. Græna leiðin (e. Green Open Access).

Er einhver glóra í þessu?

Eftirfarandi er unnið upp úr greininni „Scientists paid large publishers over $1 billion in four years to have their studies published with open access“ sem birtist í El País USA Edition, 21. nóvember 2023.

Í greininni kemur fram að hagnaðarhlutfall helstu útgefenda vísindatímarita nemur allt að 30% – 40% sem er langt umfram flestar atvinnugreinar. Er einhver glóra í þessu?

Hollenski risinn Elsevier  birti 600.000 rannsóknir á síðasta ári (2022), þar af um fjórðung í opnum aðgangi.  Samkvæmt reikningum Elsevier fyrir árið 2022 námu árstekjur fyrirtækisins 3,5 milljörðum dala, þar af voru 1,3 milljarðar dala í hagnað.  Ef rýnt er í þessar tölur má ætla að fyrir hverja 1000 dollara sem fræðasamfélagið eyðir í útgáfu hjá Elsevier, fari um 400 dollara í vasa hluthafa þess.

Þýski rannsakandinn Stefanie Haustein bendir á þversagnir núverandi kerfis.  Vísindasamfélagið borgar fyrir að gefa út eigin rannsóknir og vinnur ókeypis fyrir útgefendur við að ritrýna verk annarra samstarfsmanna . Samt sem áður þurfa stofnanir  að borga ársáskrift til að lesa tímarit sem ekki eru í opnum aðgangi.

„Þetta þýðir að fræðasamfélagið þarf að borga fyrir að fá aðgang að efninu sem það hefur gefið ókeypis. Og í ofanálag stendur almenningur frammi fyrir greiðsluvegg, þegar að það eru oft skattar almennings sem fjármagna þessar rannsóknir og útgáfu þeirra. Þetta er ósjálfbært líkan sem er að tæma fjárveitingar til rannsókna um allan heim,“ segir Haustein, sem hefur birt niðurstöður sínar í tímaritinu International Society for Scientometrics and Informetrics.