Mat á rannsóknum: Samningur um endurbætur í höfn

Búið er að ljúka gerð samnings um endurbætur á rannsóknarmati en ferlið við þá vinnu hófst í janúar 2022. Þann 8. júlí sl. var síðan haldinn fundur hagsmunaaðila þar sem saman komu yfir 350 stofnanir frá rúmlega 40 löndum sem lýst höfðu áhuga á að taka þátt í ferlinu. Sjá lista. Háskóli Íslands er enn sem komið er eina íslenska stofnunin sem getið er um.

Þann 20. júlí 2022 sl. var lokaútgáfa samningsins kynnt og þar koma „opin vísindi“ vissulega við sögu.
Lesa áfram „Mat á rannsóknum: Samningur um endurbætur í höfn“

Háskóli Íslands og Landsbókasafn efla opin vísindi

Nýr og endurskoðaður samstarfssamningur var undirritaður á milli Háskóla Íslands og Landbókasafns-Háskólabókasafns fyrir skömmu, sem varðaði m.a. opin vísindi og opinn aðgang:

„Meðal áhersluatriða er að efla samstarf samningsaðila, vinna að markmiðum stjórnvalda um opinn aðgang að rannsóknaritum og rannsóknagögnum og að safnið komi á fót rannsóknaþjónustu fyrir háskólasamfélagið, m.a. til að miðla upplýsingum um opin vísindi og auðvelda birtingar í opnum aðgangi. Þá er áhersla á að efla upplýsingalæsi meðal nemenda og bæta aðgengi að rafrænum safnkosti m.a. í kennslukerfi skólans.“

Nánar hér og hér.

UNIT gerir „Publish & Read“ samning við Elsevier

UNIT, norskt samlag um æðri menntun og rannsóknir, sem m.a. sjá um samninga um tímaritaáskriftir fyrir hönd 39 norskra háskólabókasafna og rannsóknarstofnanna, hafa gert svokallaðan „Publish & Read“ samning við Elsevier. Samningurinn er af svipuðum toga og Projekt Deal samningurinn við Wiley frá því í janúar. Forsaga málsins er sú að í mars slitnaði uppúr samningaviðræðum milli UNIT og Elsevier um áframhald á hefðbundnum tímaritaáskriftarsamningi. Í þessum nýja samningi felst að aðilar að UNIT hafa aðgang að tímaritum hjá Elsevier en borga um leið fyrir birtingu í opnum aðgangi. Áður fyrr var greitt fyrir þetta í tvennu lagi. Þó þetta komi í veg fyrir tvöfaldan kostnað (double dipping) bókasafnanna er ýmislegt gagnrýnivert varðandi samninginn. Jon Tennant bendir á að samningurinn hljóði uppá 9 milljónir evra, en það er 3% aukning frá síðasta tímaritaáskriftasamningi Að hans mati eru Norðmennirnir í raun að borga 9 milljónir evra fyrir upphefðina að fá að birta í tímaritum á vegum Elsevier. Þetta hafi ekkert að gera með raunverulegan kostnað við útgáfu á vísindaefni né mikilvægi þess og sýni hversu valdahlutföllin milli höfunda og útgefanda vísindaefnis séu í miklu ójafnvægi.