UNESCO: Open Science Outlook 1

Í desember 2023 var gefin út skýrsla á vegum UNESCO sem ber heitið Open Science Outlook 1: Status and trends around the world.

Skýrslan kemur í beinu framhaldi af tilmælum UNESCO um opin vísindi frá 2021 og er fyrsta alþjóðlega úttektin á stöðu og straumum  varðandi opin vísindi. Hún hefur að geyma nokkur lykilskilaboð og gefur einnig tóninn hvað varðar mat á innleiðingu tilmæla UNESCO en dregur einnig fram mikilvægar eyður í þeim gögnum og upplýsingum sem þegar liggja fyrir.

Þann 15. febrúar 2024 var síðan haldinn sameiginlegur fundur með fimm vinnuhópum á vegum UNESCO sem hafa einbeitt sér að mikilvægum sviðum sem skipta máli fyrir innleiðingu tilmælanna. Þetta var 4. fundur hvers vinnuhóps og tilgangurinn sá að kynna lykilskilaboð skýrslunnar. Sjá myndband hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar:
https://www.unesco.org/en/open-science

Að bera kennsl á rányrkjutímarit – upptaka og glærur

Mikið af fróðlegu efni varð til í alþjóðlegri viku opins aðgangs 23. – 29. október 2023.

Á meðal fyrirlesara sem fram komu á viðburðum vikunnar, var Helgi Sigurbjörnsson, upplýsingafræðingur á Bókasafni Menntavísindasviðs HÍ en hann hélt erindi sem bar heitið „Að bera kennsl á rányrkjutímarit“.

Fyrirlesturinn var einkar fróðlegur og leiðbeiningar og fróðleikur sem þar kom fram ætti í raun að vera skyldulesefni/áhorf hvers einasta rannsakanda. Helgi ræddi þar um hvað bæri að varast, eftir hverju ætti að líta og gaf einkar greinargott yfirlit yfir þetta fyrirbæri sem á ensku heitir „predatory journals“.