COVID rannsóknir opnar – en hversu lengi?

Covid research articles and paywallsSumir halda því fram að vísindagreinar sem gerðar voru aðgengilegar ókeypis meðan á heimsfaraldrinum stóð séu að einhverju leyti að hverfa á bak við gjaldveggi (e. paywalls). Svo virðist þó ekki vera – ennþá…

Í upphafi COVID-19 heimsfaraldursins brugðust útgefendur vísindatímarita skjótt við og gerðu rannsóknir sem tengdust faraldrinum aðgengilegar ókeypis – tímabundið að minnsta kosti. Rannsóknir í tengslum við sjúkdóminn eða vírusinn SARS-CoV-2 yrðu ókeypis „að minnsta kosti meðan faraldurinn varir,“  eins og fram kom í yfirlýsingu útgefenda áskriftatímarita 31. janúar 2020, einungis degi eftir að  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að nýi kórónaveirufaraldurinn væri bráð ógn við lýðheilsuna sem varðaði þjóðir heims.

Nú er heimsfaraldurinn á þriðja ári og fregnir berast um að nú líði að lokum ókeypis aðgangs að COVID-19 rannsóknum. Ef svo er, bendir það til þess að útgefendur hafi ákveðið að COVID-19 neyðarástandinu sé lokið áður en heilbrigðisyfirvöld heimsins hafa gert það. En er svo í raun?

Richard Van Noorden, ritstjóri hjá tímaritinu Nature kynnti sér málið. (Þess má geta að fréttateymi Nature er ritstjórnarlega óháð Springer Nature, útgefanda þess.)

Í fljótu bragði fannst aðeins einn útgefandi sem þetta virtist eiga við um. BMJ (London) ákvað nú á árinu 2022 að gera COVID-19 rannsóknir í flestum tímaritum sínum aðgengilegar í aðeins eitt ár frá birtingu. Sú stefna á hins vegar ekki við um rannsóknir sem birtast í flaggskipinu þeirra, The BMJ. Þar gilda engin tímamörk. Svo virðist þó sem hægt sé að nálgast rannsóknir hinna BMJ tímaritanna ókeypis sé þess sérstaklega óskað (sbr. Caroline White, talsmann BMJ).

Talsmenn annarra útgefenda – þar á meðal risanna Elsevier, Springer Nature og Wiley – sögðust myndu halda áfram að gera COVID rannsóknagreinar aðgengilegar ókeypis.

US National Library of Medicine (NLM) sem rekur PubMed Central Repository sagði í samtali við Nature að það hefði ekki fengið neinar beiðnir um að draga ókeypis útgáfur af COVID-19 greinum til baka sem margir útgefendur hafa sett þar til varðveislu.

Vert er að geta þess að Elsevier er búið að loka sínu „Coronavirus research hub“ en engu að síður eru rannsóknagreinarnar sem slíkar aðgengilegar.

Útgefendur hafa hins vegar mismunandi sýn á stefnu sína til lengri tíma. Sumir sem Nature hafði samband við, þar á meðal SAGE Publishing í Thousand Oaks, Kaliforníu, og NEJM Group í Waltham, Massachusetts, gáfu til kynna að þeir hefðu engin áform um að setja COVID-19 efni á bak við greiðsluvegg, en myndu halda því „free-to-view“ til frambúðar. Aðrir útgefendur voru varkárari í orðavali. „Við höldum þessu áfram svo lengi sem neyðarástandið í lýðheilsu varir“sagði Elsevier. Talsmaður Springer Nature gaf svipaða yfirlýsingu. Wiley gaf út að COVID-safnið þeirra yrði áfram tiltækt til ársloka 2023.

Vangaveltur um hvenær eða hvort tímarit muni loka aðgangi að COVID-19 rannsóknum er hluti af stærri og flóknari umræðu um hvaða vísindarannsóknir ættu að vera ókeypis. Eftir því sem hreyfingin um opinn aðgang breiðist út er mikið af frumrannsóknum, sérstaklega á sviði læknisfræði, aðgengilegar ókeypis og frjálst að endurnýta, þó að enn séu deilur um hvernig best sé að fjármagna þetta.

Þess má geta að útgefendur hafa nú samþykkt fjórum sinnum á sjö árum að opna fyrir rannsóknir sem áður hafa verið á bak við gjaldvegg, vegna neyðarástands sem tengist lýðheilsu. Þetta á við um Zika, ebólu, COVID-19 og  apabólu fyrr á þessu ári,

Hér er viðeigandi að vitna í Robert Kiley, sem er yfirmaður stefnumótunar hjá cOAlition S í Strassborg, Frakklandi, (hópur fjármögnunaraðila sem styðja opinn aðgang skv. „Plan S“). Kiley hvetur til þess að opinn aðgangur „ráðist ekki af því hversu alvarlegur sjúkdómur er talinn vera“, heldur ætti hann að gilda um allar rannsóknir. Heimurinn stendur frammi fyrir ýmsum öðrum áskorunum, svo sem loftslagsbreytingum og matvæla- og vatnsöryggi. Þess má geta að í ágúst s.l. hófu stuðningsmenn rannsókna í opnum aðgangi herferð margra ára í þeim tilgangi að gera rannsóknir varðandi loftslag og líffræðilegan fjölbreytileika ókeypis til frambúðar.

Síðan má velta fyrir sér hvað eigi að gera við eldri rannsóknir sem áskriftartímarit eiga höfundaréttinn að sem enn eru lokaðar á bak við gjaldveggi. Það er umræða mun án efa koma upp á yfirborðið í kjölfar núverandi ástands.

Lauslega þýtt og endursagt:
Van Noorden, R. (2022). Covid research is free to access — but for how long? Nature, 611(7934), 23–23. https://doi.org/10.1038/d41586-022-03418-9