ESB: Tafarlaus opinn aðgangur að fræðigreinum

Mynd: Mats Persson, menntamálaráðherra Svíþjóðar
Mats Persson, menntamálaráðherra Svíþjóðar. Mynd: Evrópusambandið.

Svíar eru í forsæti ráðs Evrópusambandsins um þessar mundir og gáfu frá sér yfirlýsingu varðandi opinn aðgang í kjölfar umræðu meðal meðal ráðherra rannsókna.

Rannsóknargreinar ESB ríkja ættu að vera aðgengilegar tafarlaust með opnum leyfum , segja Svíar.

Það að gera fræðilega útgáfu aðgengilega öllum með hraði stuðlar að hágæða rannsóknum“, sögðu Svíar 8. febrúar 2023.  „Þess vegna ætti að vera sjálfgefið að veita tafarlausan opinn aðgang að ritrýndum rannsóknarafurðum með opnum leyfum.“

Á fundi sama dag ræddu rannsóknarráðherrar ESB áskoranir varðandi leiðir að þessu markmiði.

Menntamálaráðherra Svíþjóðar, Mats Persson sagði í kjölfarið: „Það eru mál sem þarf að takast á við — til dæmis hár kostnaður við útgáfu og lestur greina. Einnig sú staðreynd að sum tímarit hafa ekki nægilega góða ferla til að tryggja gæði útgáfunnar.“ Lesa áfram „ESB: Tafarlaus opinn aðgangur að fræðigreinum“

Viðbót við Web of Science: Preprint Citation Index

Vert er að vekja athygli á nýrri viðbót við gagnasafnið Web of Science: Preprint Citation Index. 

Þessi viðbót er í raun sjálfstætt gagnasafn og þegar leitað er í WoS þarf að tilgreina sérstaklega ef ætlunin er að leita í þessu safni, ýmist sér eða meðfram Web of Science. Niðurstöður eru kirfilega merktar sem „preprint“.

Preprint Citation Index byggir á efni úr nokkrum vel þekktum preprint varðveislusöfnum/vefþjónum:

      • arXiv (1991-)
      • bioRxiv (2013-)
      • medRxiv (2019-)
      • chemRxiv (2017)
      • preprints.org (2020-)

Í kjölfarið á Covid-19 faraldrinum hefur notkun á preprint (í. forprent) aukist til mikilla muna. Gott er þó að hafa í huga að ekki er búið að ritrýna preprint nema í undantekningartilvikum.

Til umhugsunar: Aðgengi og aðgengileiki

Vefurinn arXiv.org hefur verið brautryðjandi í tengslum við opinn aðgang í meira en 30 ár og fjarlægt ýmis konar hindranir fyrir rannsóknagreinar. Engir greiðsluveggir eða gjöld og ekki þarf innskráningu til að lesa greinar. Þessi nálgun – sem veitir rannsakendum hámarksstjórn á birtingu niðurstaðna sinna og sýnileika – umbreytti rannsóknarferlinu og varð upphaf að hreyfingunni um opinn aðgang.

Aðgengi er hins vegar ekki það sama og aðgengileiki þ.e. að tryggja aðgengi óháð fötlun. Langflestar rannsóknargreinar,  sem birtar eru í hvaða tímariti sem er og á hvaða vettvangi sem er,  uppfylla ekki grunnstaðla varðandi aðgengileika.

Á árinu 2022 stóð arXiv fyrir ítarlegri notendarannsókn til að ákvarða umfang vandans, meta mótvægisaðgerðir sem í gangi eru og skoða lausnir. Niðurstöðurnar, sem unnar voru af starfsfólki arXiv, aðgengissérfræðingum og arXiv lesendum og höfundum sem nota hjálpartækni, eru birt á arXiv á PDF-sniði  og HTML-sniði. Lesa áfram „Til umhugsunar: Aðgengi og aðgengileiki“