Edinborgarháskóli og stefna um varðveislu réttinda

Einn af fyrirlesurum sem fengnir voru til að flytja erindi í viku opins aðgangs 2023 var Dominic Tate, forstöðumaður rannsóknaþjónustu við Edinborgarháskóla. Erindi hans hét „Rights Retention Policy at the University of Edinburgh, a review of the first 18 months“ og fjallaði eins og heitið gefur til kynna um varðveislu réttinda rannsakenda við Edinborgarháskóla – reynsla fyrstu 18 mánaða. Kveikjan að þeirra stefnu kom frá Harvard háskóla í Bandaríkjunum.

Það er forvitnilegt að skoða hvaða leiðir Edinborgarháskóli (og raunar fleiri háskólar í Bretlandi) hafa farið í þessum efnum.

Glærurupptaka.

 

Viðtal: Opin vísindi og opinn aðgangur í Svíþjóð

Vert er að benda á athyglisvert viðtal frá 11. september 2023 við Wilhelm Widmark, forstöðumann bókasafns háskólans í Stokkhólmi og framkvæmdastjóri EOSC (European Open Science Cloud). Í viðtalinu er fjallað um stöðu opinna vísinda og opins aðgangs í Svíþjóð og nálgun Svía gagnvart því markmiði að ná 100% opnum aðgangi. Wilhelm fjallar um mikilvægi þess að ákvarðanataka sé á „hærra stigi“, þ.e. stjórnir háskóla og rektorar hafa komið að stefnumótun um opin aðgang.

Wilhelm deilir einnig reynslu sinni af „transformative agreements“, lýsir þeim aðferðum sem hópur um stefnumótun sem kallast „Beyond Transformative Agreement“ skoðar. Hann leggur áherslu á að það sé valkostur að ganga burt frá samningaborðinu ef samningar nást ekki en það kerfst víðtækra samskipta og mikils stuðnings frá fræðasamfélaginu.

Viðtalið hér.

Spánverjar gefa út stefnu um opin vísindi

Spánverjar hafa gefið út stefnu sína um opin vísindi til næstu ára: National Strategy for Open Science (ENCA) 2023 – 2027. Áhersla er lögð á opinn aðgang að rannsóknaafurðum sem styrktar eru með opinberu fé, fjölbreyttar útgáfuaðferðir og óhagnaðardrifin módel varðandi tryggingu gæða.

Stefnan miðar að því að bæta gæði vísinda, gagnsæi og  samanburðarnákvæmni. Hún er í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um opnar rannsóknir og opin gögn.