Er hægt að komast hjá birtingagjöldum fyrir vísindagreinar?

Er hægt að finna viðskiptamódel og fyrirkomulag varðandi útgáfu vísindagreina sem ekki styðst við APC gjöld (e. article processing charges)? Fyrirkomulag sem miðar að jöfnuði varðandi þekkingarmiðlun til hagsbóta bæði fyrr vísindi og samfélag?

Síðan í september 2023 hefur cOAlition S, í samstarfi við Jisc og PLOS skoðað þessi mál með vinnuhópi fjölmargra hagsmunaaðila, s.s. upplýsingafræðingum, fjármögnunaraðilum og útgefendum. Meginmarkmið hópsins er að kanna viðskiptamódel sem byggir ekki á útgáfu greina með APC módelinu. Slíkt módel er ósanngjarnt gagnvart höfundum og kemur í veg fyrir stuðning við önnur nýrri og sanngjarnari módel.

Komið hefur í ljós að það er engin einföld leið að þessu markmiði.  Nánar um þetta í frétt frá Plan S: Beyond article-based charges working group: an update on progress.

 

 

Er einhver glóra í þessu?

Eftirfarandi er unnið upp úr greininni „Scientists paid large publishers over $1 billion in four years to have their studies published with open access“ sem birtist í El País USA Edition, 21. nóvember 2023.

Í greininni kemur fram að hagnaðarhlutfall helstu útgefenda vísindatímarita nemur allt að 30% – 40% sem er langt umfram flestar atvinnugreinar. Er einhver glóra í þessu?

Hollenski risinn Elsevier  birti 600.000 rannsóknir á síðasta ári (2022), þar af um fjórðung í opnum aðgangi.  Samkvæmt reikningum Elsevier fyrir árið 2022 námu árstekjur fyrirtækisins 3,5 milljörðum dala, þar af voru 1,3 milljarðar dala í hagnað.  Ef rýnt er í þessar tölur má ætla að fyrir hverja 1000 dollara sem fræðasamfélagið eyðir í útgáfu hjá Elsevier, fari um 400 dollara í vasa hluthafa þess.

Þýski rannsakandinn Stefanie Haustein bendir á þversagnir núverandi kerfis.  Vísindasamfélagið borgar fyrir að gefa út eigin rannsóknir og vinnur ókeypis fyrir útgefendur við að ritrýna verk annarra samstarfsmanna . Samt sem áður þurfa stofnanir  að borga ársáskrift til að lesa tímarit sem ekki eru í opnum aðgangi.

„Þetta þýðir að fræðasamfélagið þarf að borga fyrir að fá aðgang að efninu sem það hefur gefið ókeypis. Og í ofanálag stendur almenningur frammi fyrir greiðsluvegg, þegar að það eru oft skattar almennings sem fjármagna þessar rannsóknir og útgáfu þeirra. Þetta er ósjálfbært líkan sem er að tæma fjárveitingar til rannsókna um allan heim,“ segir Haustein, sem hefur birt niðurstöður sínar í tímaritinu International Society for Scientometrics and Informetrics.

Útgáfa í opnum aðgangi: mismunandi viðskiptamódel

Myndbandið hér fyrir neðan kynnir mismunandi viðskiptamódel fyrir útgáfu í opnum aðgangi sem falla ekki undir það sem kallast „höfundurinn borgar módel“ (e. author-pays-model).

Myndbandið var framleitt af Leibniz Information Center for Science and Technology (TIB) árið 2023 og er hluti af  BMBF-styrktu verkefninu open-access.network í Þýskalandi. (BMBF = Bundesministerium für Bildung und Forschung).

Vídeóið var unnið af Helene Strauß, Jonas Hauss og Jesko Rücknagel í samvinnu við Florian Carlo Strauß.