Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur nú aftur tekið við vefnum openaccess.is/opinnadgangur.is og mun sjá um rekstur hans í framtíðinni. Vefnum er ætlað að vera upplýsingaveita um allt sem viðkemur opnum aðgangi bæði á Íslandi sem og erlendis. Ýmsar upplýsingar um opinn aðgang munu birtast á vefnum, sér í lagi um þróun mála erlendis, en ýmislegt er að gerast í málefnum opins aðgangs og útgáfumála um þessar mundir. Einnig eru á vefnum upplýsingar um tilurð og sögu opins aðgangs, útskýringar á hugtökum og tenglar á erlendar upplýsingasíður um opinn aðgang. Einnig hefur verið opnaður twitter aðgangurinn @openaccess_is s og hægt verður að fylgjast með fréttastreymi þaðan beint af forsíðu openaccess.is.
Undirritun yfirlýsingar um opinn aðgang – OA2020
Þann 9. nóvember 2017 undirritaði Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn Expression of Interest in the Large-scale Implementation of Open Access to Scholarly Journals. Yfirlýsingin byggir á Berlínaryfirlýsingunni um opinn aðgang (2003), sem safnið undirritaði árið 2012, og tekur þannig undir að opinn aðgangur sé að rannsóknaniðurstöðum sem unnar eru fyrir opinbert fé, auk þess sem menningarstofnanir veiti aðgang að gögnum sínum á netinu. Stefna safnsins um opinn aðgang og opin vísindi er frá 2016.
Hvað er opinn aðgangur
Markmið opins aðgangs (Open access – OA) er að niðurstöður rannsókna sem fjármagnaðar eru af opinberu fé séu aðgengilegar á rafrænu formi með eins víðtækum og einföldum hætti og kostur er og nýtanlegar sem flestum án endurgjalds. Höfundar- eða birtingarréttur breytist ekki við útgáfu í opnum aðgangi. Opinn aðgangur stuðlar að því að efla vísinda- og fræðastarf en tilgangurinn er að hraða framþróun í vísindastarfi í allra þágu. Efni í opnum aðgangi er m.a. rannsóknarniðurstöður, rannsóknargögn, lýsigögn og stafræn framsetning texta og myndefnis (úr stefnu Landsbókasafns um opinn aðgang og opin vísindi)