Opinn aðgangur að rannsóknum er lykilatriði

Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona Bókasafns Háskólans í Reykjavík.
Greinin birtist upphaflega í Stundinni, 21. október 2019

Opinn aðgangur (e. open access) er þekkt hugtak í umræðunni um rannsóknir og birtingar fræða- og vísindafólks. Þessi umræða gerist að mestu innan háskólasamfélagsins en í stuttu máli fjallar opinn aðgangur um óheftan aðgang almennings og þar með talið nemendur háskóla jafnt sem fræða- og vísindafólks um allan heim að rannsóknarniðurstöðum sem unnar hafa verið fyrir almannafé. Þetta geta verið rannsóknir styrktar með fé úr opinberum sjóðum eins og Rannís eða fé sem rennur til háskólanna af fjárlögum og fer að hluta til rannsóknarstarfa innan þeirra.

Fljótt á litið lítur þetta út fyrir að vera hið besta og eðlilegasta mál: auðvitað eiga borgararnir rétt á að geta lesið og jafnvel nýtt sér faglega rannsóknarniðurstöður sem unnar hafa verið fyrir almannafé, hvort sem það fé kom úr rannsóknarsjóðum eða af fjárlögum til háskólanna? Annað væri galið, ekki satt?

Allt í hnút
Hugmyndin um opinn aðgang er komin til ára sinna en telst þó ung í samanburði við það bákn sem við er að etja þegar kemur að fjárhagslegum hagsmunum akademískra útgefenda og hefðum og venjum innan háskólasamfélagsins.

Það er hér sem þetta verður galið og við rekumst á hnút sem hefur verið rembingsfastur og óleystur undanfarin ár. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur þessi hnútur þó ekki gengið af umræðunni dauðri heldur þvert á móti. Undanfarin ár hafa háskólar erlendis, bæði í Evrópu og N-Ameríku, bundist bandalögum gegn útgefendum með því að hætta að greiða áskriftir að gagnasöfnum sem veita aðgang að þessum sömu virtu fræðitímaritum sem rannsakendur þeirra þurfa hefðarinnar og venjunnar vegna að birta í.

Til að einfalda má segja að háskólarnir framleiði bæði efni þessara akademísku tímarita og kaupi svo áskriftir að eigin efni aftur frá þriðja aðila, útgefendum. Hljómar þetta galið? Ég hélt það.

Venjan er þannig til komin að til að öðlast akademískan framgang þarf fólk sem stundar rannsóknir innan háskólanna að birta rannsóknarniðurstöður sínar í akademískum tímaritum sem teljast virt á þeirra fræða- eða vísindavettvangi en þar er farið eftir formföstu stigakerfi. Kostnaður við að fá birt í tímaritum sem þessum getur hlaupið á hundruðum þúsunda fyrir eina birtingu en útgefendur velta þannig stórum hluta af kostnaði við rekstur tímaritanna yfir á háskólana.

Græða meira en Apple
Ein öflugasta andspyrna gegn greiðslumódelum útgefenda er að finna á Sci-Hub en rannsakendur víða um heim reiða sig á greinar þaðan til að komast í upplýsingar um rannsóknir sem búið er að greiða fyrir.

Í fyrra kom út heimildamyndin Paywall: The Business of Scholarship en „kvikmyndin skoðar með mjög gagnrýnum hætti 35-40% framlegð (e. profit margin) akademískrar „for profit“ útgáfu eins og Elsevier sem reiðir sig á rúmlega 25 milljarða dollara framlög frá háskólum um allan heim fyrir birtingar. Framlegð eins og þessi þekkist t.d. ekki hjá stærstu tækniþróunarfyrirtækjunum eins og Apple, Facebook og Google.“

En útgefendur rukka háskólana ekki aðeins fyrir að birta rannsóknarniðurstöður sínar í þessum gömlu og virtu tímaritum heldur selja þeir líka háskólunum aðgang að eigin rannsóknarniðurstöðunum m.a. í gegnum áskriftir háskólabókasafna. Áskriftir háskólabókasafna hlaupa á tugum milljónum árlega og hundruðum milljóna í stærstu erlendu háskólunum.

Til að einfalda má segja að háskólarnir framleiði bæði efni þessara akademísku tímarita og kaupi svo áskriftir að eigin efni aftur frá þriðja aðila, útgefendum.
Hljómar þetta galið? Ég hélt það.

Litlu fiskarnir líka mikilvægir
Í heimi stóru fiskanna er háskólasamfélagið á Íslandi lítið og hefur ekki endilega burði til að taka slaginn við stóra erlenda útgefendur eitt og sér. En Ísland getur sýnt samstöðu með háskólum erlendis sem gera lýðræðislega lágmarkskröfu um opinn aðgang að rannsóknum sem styrktar eru með almannafé.

Það er sanngjörn krafa frá háskólasamfélaginu að Ísland sýni formlega samstöðu og verði virkur þátttakandi í þeim breytingum sem krafan um opinn aðgang felur í sér með því að setja opinbera stefnu um opinn aðgang sem nær til allra háskóla á Íslandi. Þannig geta háskólarnir farið að vinna formlega innan sinna vébanda að betri samningum háskólabókasafna við útgefendur og þar með skynsamlegri ráðstöfun almannafés.

Útgefendur þurfa lýðræðislegan þrýsting frá háskólasamfélögum um allan heim sem krefur þá um að breyta viðskiptamódelum sínum

Útgefendur verða að finna markvissa kröfu allstaðar frá, líka frá litlu fiskunum. Útgefendur þurfa lýðræðislegan þrýsting frá háskólasamfélögum um allan heim sem krefur þá um að breyta viðskiptamódelum sínum sem í dag halda framgangskerfum háskólanna hreinlega í gíslingu.

Árlega er staðið fyrir Viku um opinn aðgang á heimsvísu. Vikan er liður í þeirri vitundarvakningu sem sú menningar- og hugafarsbreyting gagnvart aðgengi að rannsóknum krefst. Höfum skoðun á rannsóknum sem unnar eru fyrir almannafé og hvernig fé til þeirra er ráðstafað. Ef Íslandi er alvara með að setja rannsóknir og nýsköpun á oddinn þarf stefnu um opinn aðgang á landsvísu og meira fé til rannsókna – minna til útgefenda.