Leikhús fáránleikans: Um opinn aðgang og útgáfu fræðigreina

Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri á Landsbókasafni – Háskólabókasafni
Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum, 23. október 2019

Tón­list­ar­maður fær opin­beran styrk til að gefa út lag. Hann vill gefa lagið út hjá virtu erlendu útgáfu­fyr­ir­tæki. Til þess að gera það þarf hann að gefa útgáfu­fyr­ir­tæk­inu lagið og afsala sér öllum höf­und­ar­rétt­i.  Lagið er gefið út á raf­rænu formi á Inter­net­inu á virtri safn­plötu, sem er svo gefin út á streym­isveitu en er ekki aðgengi­legt nema greitt sé fyrir aðgang­inn. Hægt er að kaupa sóla­hrings­að­gang að lag­inu á 50$ en aðgang í mánuð á 250$. 

Ofan­greint dæmi á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um, a.m.k. ekki hvað tón­list­ar­út­gáfu varð­ar. Tón­list­ar­fólk fær greitt fyrir plötu­sölu og fjölda streym­is­hlust­ana (það mætti gjarnan fá greitt meira en það er önnur saga). Ég sem unn­andi tón­listar get keypt mér aðgang fyrir fjöl­skyld­una að Spotify á litlar 2000 kr. á mán­uði. Ef við heim­færum þetta dæmi hins vegar upp á útgáfu fræði­greina í vís­inda­tíma­ritum er þetta raun­in.

Upp­haf vís­inda­tíma­rita­út­gáfu má rekja aftur til árs­ins 1665 þegar tvö tíma­rit komu út í fyrsta skipti, Philosophical Transact­ions í London og Journal des Sça­vans í Par­ís. Frá þeim tíma skap­að­ist sú hefð að höf­undar vís­inda­greina fengu ekki borgað fyrir skrif sín heldur var þeim launað með þeim heiðri að fá grein sína birta í virtu tíma­riti. Það er svo enn í dag og byggj­ast fram­gangs­kerfi háskól­anna á þessum heiðri. Höf­undur fær birta grein í vís­inda­tíma­riti og afsalar sér um leið höf­und­ar­rétti til útgáfu­fyr­ir­tæk­is­ins. Rit­rýnar fá heldur ekki borgað fyrir sína vinnu og tíma­ritið er svo selt sem áskrift­ar­tíma­rit. 

Áskriftir að prent­uðum tíma­ritum sem útgef­endur seldu bóka­söfnum og háskólum var við­skipta­mód­elið sem var við lýði fyrir tíma Inter­nets­ins. Þetta við­skipta­módel er enn við lýði þó svo að nýir mögu­leikar til miðl­unar hafi orðið til með til­komu Inter­nets­ins. Það er því ekk­ert tækni­legt sem stendur í vegi fyrir að vís­inda­greinar séu opnar á net­inu.

Hug­myndin um opinn aðgang (e. Open access) kom fyrst fram í upp­hafi 21. ald­ar­innar sem and­svar við þessu við­skipta­mód­eli. Þrátt fyrir að hug­myndin um opinn aðgang hafi verið til í 15-20 ár er lungað af nið­ur­stöðum rann­sókna sem fjár­magn­aðar eru með opin­beru fé enn birtar í tíma­ritum sem eru lokuð og bundin áskriftum eða með birt­ing­artöf­um. Vís­inda­tíma­rit voru framan af gefin út af vís­inda­fé­lögum og háskólum en gríð­ar­leg sam­þjöppun hefur orðið á þessum mark­aði á síð­ustu ára­tugum og nú er svo að stærstur hluti útgef­ins vís­inda­efnis er á höndum fárra risa útgáfu­fyr­ir­tækja (s.s Elsevi­er, Wiley, Sprin­ger, Taylor & Francis og Sage).

Bóka­söfn og háskólar eru aðal við­skipta­vinir þess­ara útgáfu­fyr­ir­tækja. Rekstur þess­ara stofn­ana er fjár­magn­aður með opin­beru fé sem m.a. er notað er til að kaupa áskriftir að tíma­ritum hér­lendis í gegnum Lands­að­gang og sér­á­skriftir háskól­anna.

Áskrift­ar­gjöld fara sífellt hækk­andi og sem dæmi má benda á að heild­ar­kostn­aður raf­rænna áskrifta í gegnum Lands­að­gang á árinu 2017 var 187,8 millj­ónir og þá eru ekki taldar með sér­á­skriftir sem háskóla­bóka­söfnin greiða auka­lega. Kostn­aður á heims­vísu er um 7.6 millj­arðar €. Það eru gríð­ar­legir fjár­mun­ir, fjár­munir sem gætu nýst háskólum og bóka­söfnum bet­ur.

Heims­byggðin stendur frammi fyrir gríð­ar­legum vanda­mál­um, sjúk­dóm­ar, lofts­lags­breyt­ingar o.s.frv. Eng­inn einn vís­inda­maður getur leyst vand­ann en með sam­eig­in­legu átaki er hugs­an­lega hægt að leysa ýmis vanda­mál. Vís­inda­menn þurfa því að hafa greiðan aðgang að öllu mögu­legu efni til að byggja rann­sóknir sínar á. Það er ekki hægt meðan sumar rann­sóknir eru lok­aðar á bak við gjald­vegg og það er ekk­ert bóka­safn eða háskóli í heim­inum sem hefur efni á því að kaupa áskriftir að öllum tíma­ritum sem gefin eru út.

Eins og áður var sagt kostar fjöl­skyldu­að­gangur að Spotify um 2000 kr. á mán­uði. Ef ég ætl­aði að kaupa mér aðgang að gagna­safni eins og ProQuest myndi það kosta mig tugi millj­óna ári. Efni sem rétti­lega ætti að vera opið öllum en er í stað­inn selt til háskóla og bóka­safna á upp­sprengdu verði. Þetta er leik­hús fárán­leik­ans. Sem betur fer höfum við Lands­að­gang, en það er keyptur aðgang­ur, ekki opinn.

Vikan 21. – 27. októ­ber er alþjóð­leg vika opins aðgangs sem haldin er nú í 12. skipti víðs vegar um heim all­an. Þema vik­unnar í þetta skipti er Open for Whom? Equity in Open Knowledge sem við höfum þýtt á íslensku sem Hver hefur aðgang? Þekk­ing öllum opin. Til­gangur vik­unnar er að efla umræðu og vit­und um opinn aðgang og tala fyrir að opinn aðgangur að rann­sókn­ar­nið­ur­stöðum verði sjálf­gefin en ekki und­an­tekn­ing­in. Lands­bóka­safn Íslands – Háskóla­bóka­safn mun í þess­ari viku deila ýmsum fróð­leik um opinn aðgang á heima­síðu sinni.