Yfirlýsing um varðveislu réttinda frá GW4 í Bretlandi

Bandalag 4ra háskóla í Bretlandi kallast GW4. Í því eru háskólarnir í Bath, Bristol, Cardiff og Exeter en þeir eru meðal þeirra háskóla í Bretlandi sem stunda flestar rannsóknir og nýsköpun.

Nú hefur GW4 birt sameiginlega yfirlýsingu um varðveislu réttinda, þar sem gripið er til víðtækari ráðstafana  til að styðja vísindamenn. Þannig er ætlunin að veita rannskaendum meiri stjórn á réttindum varðandi eigin fræðigreinar, gera þeim kleift að deila og dreifa rannsóknum og fræðigreinum eins víða og mögulegt er, styðja við að farið sé að tilmælum styrkveitenda en jafnframt að gera þeim mögulegt að birta verk sín í tímaritum að eigin vali.

Nýja yfirlýsingin, undir forystu yfirmanna bókasafna í öllum fjórum háskólum, hefur verið þróuð sem hluti af skuldbindingu bandalagsins til framtíðar varðandi rannsóknir í opnum aðgangi. Þannig vill bandalagið stuðla að og styðja starfshætti sem auðvelda jákvæð félagsleg og efnahagsleg áhrif rannsókna GW4 og skapa rannsóknamenningu án aðgreiningar.

Meira um þetta í greininni GW4 Alliance launches joint statement on rights retention in scholarly works

Um tengsl opins aðgangs og CC birtingaleyfa í ljósi höfundaréttar

Ein af þeim vefkynningum (e. webinars) sem fram fóru í viku opins aðgangs í október 2023 var „Open Access and Creative Commons licences in the light of Copyright„. Þar fjallaði Rasmus Rindom Riise frá Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, um tengsl opins aðgangs, CC birtingaleyfa og höfundaréttar.
Þetta er án efa eitt þeirra atriða sem vefjast fyrir rannsakendum en jafnframt mjög mikilvægt að skilja þessi tengsl.

Bæði glærur og upptaka er í boði frá þessari kynningu og ástæða til að hvetja rannsakendur til að kynna sér málið.