Alþjóðleg vika opins aðgangs 2025 – Hver á þekkinguna?

Dagana 20.–26. október stendur yfir Alþjóðleg vika opins aðgangs undir yfirskriftinni Hver á þekkinguna? (e. Who Owns Our Knowledge?). Dagskráin er í formi hlaðvarpsþátta þar sem opinn aðgangur er ræddur út frá ólíkum sjónarhornum:

🎧 Að deila sköpun – Opinn aðgangur og listrannsóknir
Um höfundarétt, tækifæri og áskoranir í listum og áhrif gervigreindar. Viðmælendur frá LHÍ.

🎧 Demanta opinn aðgangur á Norðurlöndum
Um samstarf á Norðurlöndum við að styðja sjálfbæra útgáfu í opnum aðgangi.

🎧 Næsta kynslóð rannsóknainnviða
Um Scite.ai, gagnrýna hugsun og hvernig bókasöfn styðja notkun gervigreindar í rannsóknum.

🎧 Open Access Publishing: Human Right vs. Monetised Commodity
Um þróun opins aðgangs og áskoranir sem fylgja hagræddri útgáfu.

📅 Málstofa 22. október kl. 12–14
Rafrænt málþing NDSN um gagnahirðingu á Norðurlöndum. Skráning hér.

🎧 Hlustaðu á hlaðvörpin hér á openaccess.is

Staðall um útgáfu í demanta opnum aðgangi

Stefna evrópusambandsins og margra þeirra sjóða sem styrkja rannsóknir er í þá átt að niðurstöður rannsókna sem styrktar eru birtist í opnum aðgangi. Raunar er stefnan nú þegar að ganga lengra og þess krafist að niðurstöður rannsókna sem styrktar eru af almannafé eigi að birta í demanta opnum aðgangi. Þetta útgáfuform byggir á því að hvorki lesandi né höfundur þurfi að greiða fyrir útgáfu og lestur rannsóknarniðurstaðnanna. Evrópusambandið fjármagnaði Diamas verkefnið sem var ætlað að kortleggja demanta opna útgáfu í ERA (European research area), bæta gæði þessa útgáfuforms og ýta undir samvinnu með því að byggja samfélag utan um útgáfu í demanta opnum aðgangi á ERA svæðinu. Einn afrakstur þessa samstarfs er DOAS staðallinn, eða Diamond open access standard sem er ætlað að hjálpa útgefendum við að bæta gæði útgáfunnar, skilgreina almennilega hvað demanta opinn aðgangur merkir og skjóta styrkari stoðum undir útgáfustarfsemina.

Staðallinn tekur á 7 grunnþáttum vísindalegrar útgáfu

  1. Fjármögnun
  2. Löglegt eignarhald, hlutverk og stjórnskipan útgáfunnar
  3. Opin vísindi
  4. Ritstjórn, gæði hennar og rannsóknarsiðferði
  5. Tæknileg skilvirkni þjónustu
  6. Sýnileika, miðlun, markaðssetningu og áhrif
  7. Jöfnuð, fjölbreytileika, inngildingu og tilverurétt (EDIB ), fjöltyngi og jafnrétti kynjanna.

Þannig er til dæmis farið fram á það í staðlinum að eignarhald útgáfunnar sé gagnsætt og í eigu fræðasamfélagsins, fjármögnun hennar sé kortlögð til meðallangs tíma og allar upplýsingar um afnotaleyfi á efni útgáfunnar komi skýrt fram á vefsíðum útgáfunnar. Staðalinn má lesa hér, en auk hans er mögulegt fyrir útgefendur að taka sjálfspróf úr staðlinum sem gefur þá góða mynd af því hvar hægt er að bæta útgáfuhætti. Sjálfsprófið má taka hér.

Tölfræði – opinn aðgangur á Íslandi

Opnum aðgangi á Íslandi hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár þrátt fyrir að enn sé beðið eftir stefnu stjórnvalda um opinn aðgang. Má því einna helst þakka elju einstakra fræðimanna og tilmælum sjóða um að rannsóknarniðurstöður sem fjármagnaðar eru með almannafé séu í opnum aðgangi. OpenAlex er gagnagrunnur sem inniheldur mikið magn fræðiefnis. Þar er mögulegt að sækja tölfræðilegar upplýsingar um útgáfu landa, stofnana og fræðimanna.

Ef Ísland er skoðað í heildina inni í gagnagrunninum koma fram rúmlega 46 þúsund niðurstöður. Af þeim eru 49.1% í einhverskonar opnum aðgangi. Ef við skoðum hins vegar aðeins ár fyrir ár kemur í ljós að árið 2023 var um 72% allra greina sem tengjast Íslandi í opnum aðgangi.

Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Íslandi og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.
Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Íslandi og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.

Þessar niðurstöður eru sambærilegar ef litið er til háskólanna. Ef við skoðum tölfræði um Háskóla Íslands inni í OpenAlex fáum við um 27 þúsund niðurstöður. Af þessum greinum eru 49,3% í einhverskonar opnum aðgangi og HR hefur 47,5% greina í opnum aðgangi. Ef við skoðum hins vegar aðeins ár fyrir ár, kemur í ljós að árin 2023 og 2022 eru um 72% þeirra greina sem finnast í OpenAlex í opnum aðgangi hjá HÍ og 63,5% hjá HR.

Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Háskóla Íslands og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.
Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Háskóla Íslands og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.

Ef sambærileg leit er gerð innan IRIS rannsóknargáttarinnar kemur í ljós að af þeim 56.456 rannsóknarafurðum sem þar eru skráðar eru 16.420 í opnum aðgangi, eða rétt um 30%. Ef við skoðum þá aðeins árið 2023 kemur í ljós að af þeim 2.717 greinum sem gefnar voru út árið 2023 og hafa verið skráðar í kerfið eru 1.434 skráðar í opnum aðgangi, eða um 52%. Þó mögulegt sé að þessar tölur séu að einhverju leyti óáreiðanlegar, má þó sjá greinilega þróun í átt að opnum aðgangi.