Forprent og rannsóknir um nám í læknisfræði

Forprent eða preprint er útgáfa af rannsóknarhandriti sem er birt er á preprint vefþjóni áður en ritrýni fer fram. Forprent gera höfundum kleift að deila rannsóknum á fljótlegan hátt, fá skjóta endurgjöf og gera mögulega skráningu rannsókna í styrkumsóknum.

Flest tímarit sem varða nám í læknisfræði eru samþykk forprentum, sem bendir til þess að þau gegni hlutverki í umræðu á þessu sviði. Samt er lítið vitað um forprent um nám lækna, þar á meðal hvað einkennir höfunda, hvernig forprentin eru notuð og hlutfall endanlegrar útgáfu. Nýlega kom út rannsókn sem veitir ágætt yfirlit varðandi þessi mál: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

Þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar má sjá að höfundar draga eftirfarandi ályktanir: Algengt er að rannsóknir varðandi nám í læknisfræði séu birtar sem forprent og fá þannig mikla kynningu og niðurhal og eru í framhaldinu birtar í ritrýndum tímaritum (allt að helmingur), þar af í tímaritum sem fjalla um nám í læknisfræði. Miðað við kostina sem fylgja forprenti og seinagang sem fylgir útgáfu rannsókna um nám í læknisfræði er líklegt að fleiri muni nýta sér forprent og það verði hluti af umræðu á þessu sviði.

Meira um aðferðir við rannsóknina, niðurstöður og umfjöllun: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

 

Útgáfumerking til að tryggja gæði

Allir kannast við næringarmerkingar á matvöru. Nú hafa samtökin Public Knowledge Project lagt til nk. útgáfumerkingu fyrir rannsóknargreinar þar sem tiltekin eru átta atriði til að bæta gæði varðandi útgáfu tímaritsgreina og hafa gagnsæi í fyrirrúmi.  Samtökin eru óhagnaðardrifin, rekin af John Willinsky og kollegum hans við Simon Fraser University í Burnaby, Canada.

Willinsky vill að fræðileg útgáfa upplýsi lesendur um hversu nákvæmlega greinin/tímaritið uppfyllir akademískar kröfur. Til að byrja með hefur útgáfumerkingin verið þróuð fyrir tímarit sem gefin eru út á OJS (e. Open Journal Systems) formi.

Meira um þetta áhugaverða verkefni í greininni Researchers want a ‘nutrition label’ for academic-paper facts

Mynd: J. Willinsky & D. Pimentel/Learned Publishing (CC BY 4.0 DEED)

Hollendingar og demantaleiðin

Í Hollandi er hafið verkefnið „Enhancing Diamond Open Access in the Netherlands“ til að efla og styrkja fræðilega útgáfu á vegum bókasafna og annarra, sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Þetta verkefni er í samræmi við skýrsluna „Versterking ondersteuning van diamant open access in Nederland“ á vegum hollensku háskólanna (UNL).

Þessi ráðstöfun er í takt við markmiðin sem sett eru fram í metnaðarfullri áætlun National Plan Open Science 2030, þar sem áhersla er lögð á fjárfestingar í opnum innviðum til að hlúa að vistkerfi fræðilegra samskipta.

Erasmus háskólinn í Rotterdam leiðir verkefnið í samvinnu við UKB* og UNL og er markmiðið að  styrkja demantaleiðina (Diamond Open Access -DOA) með samþættri nálgun, þar á meðal að koma á fót innlendri miðstöð sérfræðinga, efla getu á vettvangi DOA útgáfu og innleiða mælingar á henni.

*UKB er samstarfsvettvangur hollenskra háskólabókasafna og The Royal Library of the Netherlands.