Staðan varðandi opin gögn 2024

Könnunin The State of Open Data hefur nú farið fram í níunda sinn. Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um atferli vísindamanna varðandi opin gögn. Um er að ræða samstarfsverkefni Figshare, Digital Science og Springer Nature.

Með því að sameina upplýsingar og gögn frá þremur mismunandi aðilum, þ.e.  Dimensions, Springer Nature Data Availability Statements (DAS) og Chan Zuckerberg Initiative-funded Data Citation Corpus (CZI DCC), þá afhjúpast tengsl milli ritrýndra rannsókna og gagnasetta sem eru aðgengileg.

Forsvarsmenn könnunarinnar telja þetta stökk frá því að skilja hvað fólk segist ætla að gera yfir í að sýna hvað það í raun gerir. Þetta er mikilvægt skref til að knýja fram breytingar og skilja hvernig brúa megi bilið milli stefnu og framkvæmda í miðlun opinna gagna.

Ríkisstofnanir og birting gagna – lærdómur frá COVID-19

Það hefði verið illmögulegt að vita hvernig bregðast skyldi við COVID-19 faraldrinum án gagna. Þau skiptu sköpum til að skilja hvernig faraldurinn dreifðist og hvaða aðgerðir skiluðu árangri. Samt birtu stofnanir ýmissa landa gögn sín ekki ætíð á sem æskilegastan máta. Það gerði viðbrögð erfiðari en ella. Það er því mikilvægt að læra af því hvað gekk vel og hvað ekki fyrir framtíðina.

Í greininni Best practices for government agencies to publish data: lessons from COVID-19 úr tímaritinu The Lancet Public Health eru lagðar til sjö bestu starfsvenjur um hvernig birta má gögn á sem bestan máta:

        • Safna gögnum sem skipta máli
        • Gera gögn sambærileg
        • Skjala gögnin vandlega
        • Deila þeim oft og tímanlega
        • Birta gögnin á vísum stað
        • Velja endurnýtanlegt snið á gögnin
        • Veita öðrum leyfi til að endurnýta þau.

Sjá greinina hér.

Rannsóknargögn og framtíðin

Í greininni Formatting the Future: Why Researchers Should Consider File Formats eftir Dr Kim Clugston, Research Data Coordinator, OSC og
Dr Leontien Talboom, Technical Analyst, Digital Initiatives, er fjallað um mikilvægi þess að gera rannsóknargögn opin og tryggja langtíma varðveislu þeirra svo nýta megi þau í framtíðinni.

Vísindamenn standa frammi fyrir miklum áskorunum sem felast í að varðveita rannsóknagögn og minnka hættuna á að úreltur hugbúnaður og vélbúnaður geri gögnin að lokum óaðgengileg.

Lögð er áhersla á gildi opinna skráarsniða og vísindamönnum bent á að senda gögn sín einungis til traustra gagnasafna. Með því að huga vel að þessu er hægt að tryggja aðgengi komandi kynslóða.

Lesa nánar.

*Mynd: Jørgen Stamp,  Creative Commons Attribution 2.5 Denmark