Áhrif COVID-19 á opin vísindi

Hvaða áhrif hafði COVID-19 heimsfaraldurinn á umræðuna um opin vísindi?

Um það fjallar greinin „The impact of COVID-19 on the debate on open science: a qualitative analysis of published materials from the period of the pandemic“ úr tímaritinu Humanities and Social Sciences Communications frá 2. október 2024. Höfundar eru Melanie Benson Marshall og fleiri. Greinin er að sjálfsögðu í opnum aðgangi!

Rýnt er í alþjóðlega umræðu sem fram fór meðan á heimsfaraldrinum stóð. Notaðar eru eigindlegar aðferðir til að greina ýmsar tegundir efnis sem ritað var í faraldrinum á ensku, þýsku, portúgölsku og spænsku.

Niðurstöðurnar sýna að margir höfundar eru þeirrar skoðunar að reynslan af heimsfaraldrinum hafi styrkt rökin  fyrir opnum vísindum.

Breytt rannsóknaumhverfi, vísindamenn og sérfræðingar

Þegar breyta á rannsóknaumhverfinu og skipta yfir í opna rannsóknamenningu krefst það nýrra leiða við skipulagningu, framkvæmd og miðlun rannsókna.

Þetta er ekki einfalt verkefni og rannsakendur geta ekki breytt því einir og sér. Öflugur stofnanastuðningur er nauðsynlegur sem og framlag sérfræðinga með færni, reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Í þessum hópi sérfræðinga eru m.a. rannsóknarstjórar, upplýsingafræðingar, sérfræðingar á rannsóknarstofum og sérfræðingar á sviði upplýsingatækni og hugbúnaða, fjármála- og lögfræði.

Til að hægt sé að breyta rannsóknaumhverfinu er nauðsynlegt að til staðar sé skilvirkt samstarf milli vísindamanna og sérfræðinga. Þegar vel tekst til, stuðlar slíkt samstarf að sameiginlegum skilningi á opnum rannsóknum og auðveldar góðar rannsóknarvenjur. Lesa áfram „Breytt rannsóknaumhverfi, vísindamenn og sérfræðingar“

Írland: Aðgerðaáætlun írskra stjórnvalda um opnar rannsóknir 2022-2030

Hér er hægt að kynna sér Aðgerðaáætlun írskra stjórnvalda um opnar rannsóknir 2022-2030. Henni er ætlað að vera vegvísir fyrir framkvæmd opinna rannsókna á Írlandi, útlista markmið og samræma aðgerðir til stuðnings innlendu rannsóknaumhverfi svo styrkja megi opnar rannsóknaraðferðir.

Áætlunin verður uppfærð með reglulegu millibili til að útfæra nánar aðgerðir sem til þarf.

Reynt verður að horfa sérstaklega til hópa sem gætu verið viðkvæmir í þessu breytingaferli, t.d. ungra rannsakenda.

„Building on the essential principles of academic freedom, research integrity and scientific excellence, open science sets a new paradigm that integrates into the scientific enterprise practices for reproducibility, transparency, sharing and collaboration resulting from the increased opening of scientific contents, tools and processes.“

Sjá nánar í National Action Plan for Open Research: 2022-2030.