Eru að verða straumhvörf varðandi opinn aðgang?

Hér á eftir fer lausleg þýðing og samantekt á grein sem Moumita Koley, ráðgjafi um framtíð fræðilegrar útgáfu hjá ISC International Science Council ritaði nýlega: Is the Tide Turing in Favour of Universal and Equitable Open Access? Í greininni deilir hún sýn sinni á ríkjandi útgáfumódel í fræðilegri útgáfu – sem er að mestu undir stjórn hagnaðardrifinna útgefenda. Hún varpar ljósi á aðra valkosti sem stöðugt vinna á innan fræðasamfélagsins.

Akademísk útgáfa hefur lengi einkennst af útgefendum sem krefjast hárra áskriftargjalda, takmarka aðgang að rannsóknargögnum og setja strangar reglur um höfundarrétt. Þetta hefur síðan leitt til þess að bókasöfn hafa lengi átt í erfiðleikum með að greiða fyrir aðgang að tímaritum á meðan útgefendur uppskera mikinn hagnað. Þrátt fyrir þá staðreynd að hið opinbera fjármagnar rannsóknir í miklum mæli og fræðimenn veiti ókeypis ritrýni, halda útgefendur áfram að hagnast. Sem dæmi má nefna útgefandann Elsevier sem greindi frá 38% hagnaði árið 2022  samanborið við 15% hagnað útgáfu sem ekki er af fræðilegum toga. Lesa áfram „Eru að verða straumhvörf varðandi opinn aðgang?“

Preprint (forprent) og ritrýni: Vefnámskeið á vegum OASPA

Þann 27. júlí 2023 var haldið vefnámskeið á vegum OASPA (Open Access Scholarly Publishing Association) sem bar yfirskriftina Shaping the Future of Scholarly Communication: The Role of Preprint Peer Review. 

Það er ljóst að notkun á preprints (í. forprenti) hefur aukist gríðarlega nú á síðustu árum og nú eru komnir til sögunnar ýmsir þjónustuaðilar sem auðvelda höfundum aðgang að ritrýni á preprints ásamt annarri aðstoð við að koma niðurstöðum rannsókna eins fljótt á framfæri og unnt er. Þjónustumódelin eru mismunandi, oftast gjaldfrjáls enn sem komið er og byggja á styrkjum en í framtíðinni má vænta þess að einhver gjöld komi inn í myndina en þó tæpast varðandi höfunda.

Það er vel þess virði að horfa á upptöku frá þessu vefnámskeiði hér fyrir neðan:

Einnig má nálgast vefnámskeiðið á vef OASPA ásamt kynningarglærum þeirra aðila sem þátt tóku (þjónustuaðila) sem og yfirlit yfir spurningar námskeiðsgesta og svörin sem þeir fengu .