Demantaleiðin (Diamond Open Access) er opinn aðgangur þar sem engin þjónustugjöld vegna birtinga leggjast á höfunda eða styrktveitendur. Höfundur heldur að jafnaði höfundarréttinum í stað þess að framselja réttinn til útgefanda eins og í hefðbundinni útgáfu. Fjölmörg ritrýnd gæðatímarit eru í opnum aðgangi.
Háskólinn í Göttingen mun leiða athyglisvert ESB-verkefni með 23 samstarfsaðilum í 14 Evrópulöndum frá og með janúar 2023. Markmiðið er að efla og þróa tímaritaútgáfu stofnana í Evrópu með því að nota líkan sem kennt hefur verið við „Diamond Open Access“. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur styrkt verkefnið „Creating a Robust Accessible Federated Technology for Open Access (CRAFT-OA)“ til þriggja ára og veitti samtals 4,8 milljónum evra.
Með því að bjóða upp á sértæka tæknilega þjónustu og verkfæri fyrir allan feril tímaritaútgáfu gerir verkefnið staðbundnum og svæðisbundnum kerfum og þjónustuaðilum í þessum geira kleift að auka og bæta fagmennsku varðandi innihald, þjónustu og kerfi. Þannig verður auðveldara að tengja þjónustu þeirra við önnur upplýsingakerfi í vísindum. Einnig mun þetta auðvelda starf vísindamanna og fræðimanna sem taka þátt í þessu líkani. Lesa áfram „CRAFT-OA verkefnið og „demantaleiðin““