Rányrkjutímarit og grunlausir rannsakendur

Ný grein í tímaritinu Nature ber yfirskriftina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Þetta er holl lesning fyrir rannsakendur sem eru að fóta sig í útgáfuumhverfinu sem fræðimenn búa við.

Rányrkjutímarit eru orðin útbreidd innan vísindasamfélagsins. Þessi tímarit innheimta gjöld af höfundum,  birta óritrýndar greinar, sóa tíma og peningum vísindamanna og grafa undan trausti almennings á vísindum.

Nýleg könnun leiddi í ljós að margir vísindamenn frá lág- og meðaltekjulöndum sendu vísvitandi greinar til rányrkjutímarita og sáu í því tækifæri til að öðlast framgang í  samkeppninni innan akademíunnar.

Skortur á fræðslu um útgáfuviðmið  og skortur á stuðningi rannsóknarstofnana stuðlar að því að rannsakendur verði fórnarlömb slíkra útgefenda. Þeir nýta sér þekkingarskort vísindamanna á fræðilegri útgáfu og bjóða hraðvirkt og einfalt útgáfuferli.

Hér þarf að gera betur.

Skoða greinina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Mynd: Úr greininni „Predatory journals: What they are and how to avoid them“.

Eru að verða straumhvörf varðandi opinn aðgang?

Hér á eftir fer lausleg þýðing og samantekt á grein sem Moumita Koley, ráðgjafi um framtíð fræðilegrar útgáfu hjá ISC International Science Council ritaði nýlega: Is the Tide Turing in Favour of Universal and Equitable Open Access? Í greininni deilir hún sýn sinni á ríkjandi útgáfumódel í fræðilegri útgáfu – sem er að mestu undir stjórn hagnaðardrifinna útgefenda. Hún varpar ljósi á aðra valkosti sem stöðugt vinna á innan fræðasamfélagsins.

Akademísk útgáfa hefur lengi einkennst af útgefendum sem krefjast hárra áskriftargjalda, takmarka aðgang að rannsóknargögnum og setja strangar reglur um höfundarrétt. Þetta hefur síðan leitt til þess að bókasöfn hafa lengi átt í erfiðleikum með að greiða fyrir aðgang að tímaritum á meðan útgefendur uppskera mikinn hagnað. Þrátt fyrir þá staðreynd að hið opinbera fjármagnar rannsóknir í miklum mæli og fræðimenn veiti ókeypis ritrýni, halda útgefendur áfram að hagnast. Sem dæmi má nefna útgefandann Elsevier sem greindi frá 38% hagnaði árið 2022  samanborið við 15% hagnað útgáfu sem ekki er af fræðilegum toga. Lesa áfram „Eru að verða straumhvörf varðandi opinn aðgang?“

Alþjóðleg vika opins aðgangs 2023: 23. – 29. október nk.

Það verður mikið lagt í viku opins aðgangs að þessu sinni. Í ár ber vikan yfirskriftina Community over Commercialization.

Samstarfshópur háskólabókavarða um opin vísindi/opinn aðgang fékk styrk úr Bókasafnasjóði í byrjun sumars til að gera þessa viku veglega úr garði. Undirbúningur stendur yfir og verður alls boðið upp á fjórar vefkynningar með erlendum fyrirlesurum og eina vinnustofu (á staðnum og yfir netið). Þetta er kjörið tækifæri fyrir íslenska rannsakendur að setja sig enn betur inn í opinn aðgang/opin vísindi.

Meðal efnis:

      • Opinn aðgangur og birtingaleyfin frá Creative Commons
      • Opin vísindi/opinn aðgangur og stefnumótun
      • Opin gögn
      • Rannsóknamat (e. research assessment)

Vikan verður auglýst vel og vandlega þegar nær dregur.