Þegar höfundur skrifar undir útgáfusamning við útgefanda vísindaefnis er hefðbundna leiðin sú að yfirleitt er klausa í samningnum þar sem höfundur afsalar sér að hluta eða öllu leyti höfundarrétti til útgefandans. Þetta gerir það að verkum að höfundur hefur ekki leyfi til að birta grein sína þar sem hann vill t.d. í varðveislusafni eða nota á heimasvæði námskeiðs í sinni eigin kennslu. SPARC (alþjóðleg samtök sem berjast fyrir opnari vísindum) gáfu nýlega út leiðbeiningar fyrir höfunda um réttindi sín og mikilvægi þess að afsala sér ekki höfundarrétti þegar skrifað er undir útgáfusamninga. Afskaplega mikilvægt tæki fyrir höfunda að hafa að leiðarljósi þegar gerðir eru útgáfusamningar og fyrir opnara aðgengi að vísindaefni.
UNIT gerir „Publish & Read“ samning við Elsevier
UNIT, norskt samlag um æðri menntun og rannsóknir, sem m.a. sjá um samninga um tímaritaáskriftir fyrir hönd 39 norskra háskólabókasafna og rannsóknarstofnanna, hafa gert svokallaðan „Publish & Read“ samning við Elsevier. Samningurinn er af svipuðum toga og Projekt Deal samningurinn við Wiley frá því í janúar. Forsaga málsins er sú að í mars slitnaði uppúr samningaviðræðum milli UNIT og Elsevier um áframhald á hefðbundnum tímaritaáskriftarsamningi. Í þessum nýja samningi felst að aðilar að UNIT hafa aðgang að tímaritum hjá Elsevier en borga um leið fyrir birtingu í opnum aðgangi. Áður fyrr var greitt fyrir þetta í tvennu lagi. Þó þetta komi í veg fyrir tvöfaldan kostnað (double dipping) bókasafnanna er ýmislegt gagnrýnivert varðandi samninginn. Jon Tennant bendir á að samningurinn hljóði uppá 9 milljónir evra, en það er 3% aukning frá síðasta tímaritaáskriftasamningi Að hans mati eru Norðmennirnir í raun að borga 9 milljónir evra fyrir upphefðina að fá að birta í tímaritum á vegum Elsevier. Þetta hafi ekkert að gera með raunverulegan kostnað við útgáfu á vísindaefni né mikilvægi þess og sýni hversu valdahlutföllin milli höfunda og útgefanda vísindaefnis séu í miklu ójafnvægi.
Tímamótasamningur
Projekt Deal er samstarfsverkefni ýmissa háskóla og vísindastofnanna í Þýskalandi og gengur út á að segja upp stórum tímaritaáskriftum við stóra útgefendur eins og Wiley, Elsevier o.fl. og og gera í staðinn svokallaða „Publish & Read“ samninga.
Þann 15. janúar síðastliðinn var undirritaður tímamótasamningur milli Projekt Deal og útgáfurisans Wiley. Samningurinn gengur út frá „Publish & Read“ módelinu og er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Samningurinn snýst í stuttu máli um að aðilar að Deal munu geta gefið út vísindagreinar í tímaritum Wiley í opnum aðgangi án aukakostnaðar og einnig er tryggður aðgangur að rafrænum tímaritum útgefandans frá árinu 1997.