DORA: Endurskoðun rannsóknamats – dæmisögur

Á vef DORA (San Francisco Declaration on Research Assessment) er að finna áhugavert safn af dæmisögum frá háskólum og fleirum sem gert hafa breytingar á  rannsóknamati sínu undanfarin ár og sett fram nýjar stefnur og verklag. Þar kemur mjög skýrt fram um hvaða stofnun er að ræða, hverju var breytt, hversvegna, hvernig og hvenær.

Sem dæmi má nefna Samtök háskóla í Noregi, Háskólann í Tampere, Finnlandi og Háskólann í Bath, Englandi.

 

Alþjóðleg ráðstefna nr. 2 um Diamond Open Access

Komin er út skýrsla um alþjóðlega ráðstefnu nr. 2 um  Diamond Open Access,  sem haldin var 25. – 26. október 2023 í Toluca, Mexíkó. Ráðstefnuna héldu Science Europe, COAlition S, OPERAS og franska rannsóknamiðstöðin (ANR) og var hún jafnframt hluti vikulangs alþjóðlegs þings um Diamond Open Access 23. – 27. október.

Á þessu alþjóðlega þingi komu saman 688 þátttakendur frá 75 löndum; þar á meðal vísindamenn, ritstjórar, fulltrúar háskóla, aðilar frá stofnunum sem fjármagna rannsóknir, fulltrúar bókasafna, fræðafélaga og stefnumótendur.
Lesa áfram „Alþjóðleg ráðstefna nr. 2 um Diamond Open Access“

UNESCO: Open Science Outlook 1

Í desember 2023 var gefin út skýrsla á vegum UNESCO sem ber heitið Open Science Outlook 1: Status and trends around the world.

Skýrslan kemur í beinu framhaldi af tilmælum UNESCO um opin vísindi frá 2021 og er fyrsta alþjóðlega úttektin á stöðu og straumum  varðandi opin vísindi. Hún hefur að geyma nokkur lykilskilaboð og gefur einnig tóninn hvað varðar mat á innleiðingu tilmæla UNESCO en dregur einnig fram mikilvægar eyður í þeim gögnum og upplýsingum sem þegar liggja fyrir.

Þann 15. febrúar 2024 var síðan haldinn sameiginlegur fundur með fimm vinnuhópum á vegum UNESCO sem hafa einbeitt sér að mikilvægum sviðum sem skipta máli fyrir innleiðingu tilmælanna. Þetta var 4. fundur hvers vinnuhóps og tilgangurinn sá að kynna lykilskilaboð skýrslunnar. Sjá myndband hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar:
https://www.unesco.org/en/open-science