Háskólinn í Stokkhólmi og opin vísindi

Háskólinn í Stokkhólmi stefnir hraðbyri að opnum vísindum innan sinna veggja og sem hluti af þeirri vinnu hefur rektor hans Astrid Söderbergh Widding fyrir hönd skólans, undirritað Barcelona yfirlýsinguna um opnar rannsóknaupplýsingar.

Wilhelm Widmark, ráðgjafi skólans varðandi Opin vísindi telur þetta mikilvægt skref til í átt að gagnsærra ferli rannsóknamats.

Rannsóknaupplýsingar eiga við um upplýsingar eða lýsigögn sem tengjast mati eða samskiptum varðandi rannsóknir. Þetta geta verið lýsigögn varðandi rannsóknagreinar eða aðrar útgáfur rannsókna, fyrir rannsakendur eða varðandi rannsóknagögn og rannsóknahugbúnað. Eins og staðan er nú, eru margir innviðir lokaðir þar sem rannsóknaupplýsingar er að finna, sem þýðir að lýsigögn eru einungis aðgengileg þeim sem greiða áskriftargjöld.

Nánar hér: Stockholm University signs declaration on open research information

 

Forprent og rannsóknir um nám í læknisfræði

Forprent eða preprint er útgáfa af rannsóknarhandriti sem er birt er á preprint vefþjóni áður en ritrýni fer fram. Forprent gera höfundum kleift að deila rannsóknum á fljótlegan hátt, fá skjóta endurgjöf og gera mögulega skráningu rannsókna í styrkumsóknum.

Flest tímarit sem varða nám í læknisfræði eru samþykk forprentum, sem bendir til þess að þau gegni hlutverki í umræðu á þessu sviði. Samt er lítið vitað um forprent um nám lækna, þar á meðal hvað einkennir höfunda, hvernig forprentin eru notuð og hlutfall endanlegrar útgáfu. Nýlega kom út rannsókn sem veitir ágætt yfirlit varðandi þessi mál: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

Þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar má sjá að höfundar draga eftirfarandi ályktanir: Algengt er að rannsóknir varðandi nám í læknisfræði séu birtar sem forprent og fá þannig mikla kynningu og niðurhal og eru í framhaldinu birtar í ritrýndum tímaritum (allt að helmingur), þar af í tímaritum sem fjalla um nám í læknisfræði. Miðað við kostina sem fylgja forprenti og seinagang sem fylgir útgáfu rannsókna um nám í læknisfræði er líklegt að fleiri muni nýta sér forprent og það verði hluti af umræðu á þessu sviði.

Meira um aðferðir við rannsóknina, niðurstöður og umfjöllun: Describing the Landscape of Medical Education Preprints on MedRxiv: Current Trends and Future Recommendations.

 

Útgáfumerking til að tryggja gæði

Allir kannast við næringarmerkingar á matvöru. Nú hafa samtökin Public Knowledge Project lagt til nk. útgáfumerkingu fyrir rannsóknargreinar þar sem tiltekin eru átta atriði til að bæta gæði varðandi útgáfu tímaritsgreina og hafa gagnsæi í fyrirrúmi.  Samtökin eru óhagnaðardrifin, rekin af John Willinsky og kollegum hans við Simon Fraser University í Burnaby, Canada.

Willinsky vill að fræðileg útgáfa upplýsi lesendur um hversu nákvæmlega greinin/tímaritið uppfyllir akademískar kröfur. Til að byrja með hefur útgáfumerkingin verið þróuð fyrir tímarit sem gefin eru út á OJS (e. Open Journal Systems) formi.

Meira um þetta áhugaverða verkefni í greininni Researchers want a ‘nutrition label’ for academic-paper facts

Mynd: J. Willinsky & D. Pimentel/Learned Publishing (CC BY 4.0 DEED)