Staðan varðandi opin gögn 2024

Könnunin The State of Open Data hefur nú farið fram í níunda sinn. Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um atferli vísindamanna varðandi opin gögn. Um er að ræða samstarfsverkefni Figshare, Digital Science og Springer Nature.

Með því að sameina upplýsingar og gögn frá þremur mismunandi aðilum, þ.e.  Dimensions, Springer Nature Data Availability Statements (DAS) og Chan Zuckerberg Initiative-funded Data Citation Corpus (CZI DCC), þá afhjúpast tengsl milli ritrýndra rannsókna og gagnasetta sem eru aðgengileg.

Forsvarsmenn könnunarinnar telja þetta stökk frá því að skilja hvað fólk segist ætla að gera yfir í að sýna hvað það í raun gerir. Þetta er mikilvægt skref til að knýja fram breytingar og skilja hvernig brúa megi bilið milli stefnu og framkvæmda í miðlun opinna gagna.

Lifir Google Scholar af gervigreindarbyltinguna?

Can Google Scholar survive the AI revolution heitir grein úr Nature frá 19. nóvember 2024.

Nú, þegar Google Scholar fagnar 20 ára afmæli sínum, eru komnir til sögunnar keppinautar sem styðjast við gervigreind til að bæta leitarupplifun notenda – og sumir gera notendum kleift að hlaða niður gögnum. ChatGPT, OpenAlex, Semantic Scholar og Consensus eru dæmi um slíka keppinauta.

Meira um þetta í greininni Can Google Scholar survive the AI revolution..

Framtíð útgáfu og stefnu um opinn aðgang

Útgefandinn MIT Press hefur gefið út ítarlega skýrslu sem fjallar um hvernig stefnur um opinn aðgang móta rannsóknir og hvað þarf til að hámarka jákvæð áhrif þeirra á vistkerfi rannsókna.

Skýrslan ber heitið „Access to Science & Scholarship 2024: Building an Evidence Base to Support the Future of Open Research Policy. Hún er afrakstur vinnustofu sem styrkt var af National Science Foundation og haldin var í Washington D.C., í höfuðstöðvum American Association for the Advancement of Science 20. september 2024.