Framkvæmdastjórn ESB hefur hleypt af stokkunum vefnum Open Research Europe. Þar er útgáfuvettvangur fyrir fræðilegar greinar og rit sem eru afrakstur styrkja tengdum Horizon 2020, rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun 2014-2020 og Horizon Europe.
Opið er fyrir birtingar úr öllum greinum vísinda í opnum aðgangi án endurgjalds. Efnið getur verið af margvíslegum toga, t.d. greinar, aðferðir og ritgerðir.
Open Research Europe er ekki varðveislusafn. Það miðar fyrst og fremst að frumgerð efnis með vísindalegum niðurstöðum á grundvelli styrkja frá fyrrgreindri rammaáætlun og má ekki hafa birst annars staðar.
Ritrýniferlið er gegnsætt og eru tilvitnanir og aðrir mælikvarðar skráðir, svo hægt sé að mæla áhrifastuðul. Markmiðið er að veita öllum hindrunarlausan opinn aðgang að niðurstöðum evrópskra rannsókna sem fjármagnaðar eru á þennan hátt.