Einföld leið til að nálgast löglegar útgáfur vísindagreina
Miðlun á vísindaefni er að breytast mikið um þessar mundir. Æ fleiri háskólar og samlög um rafrænar áskriftir að tímaritum hafa sagt upp samningum sínum um við Elsevier og aðra stóra útgefendur á vísindalegu efni, nú síðast frændur okkar Svíar. Ástæður eru síhækkandi áskriftargjöld og há þjónustugjöld vegna birtinga (Article Processing Charges).
Þrátt fyrir að Evrópusambandið og fleiri hafa sett sér háleit markmið um opinn aðgang að vísindaniðurstöðum er enn langt í land hvað það varðar.
Sci-Hub er sjóræningja síða þar sem að nálgast má yfir 60 milljón vísindagreina, sem fengnar eru með ólöglegum hætti framhjá rándýrum gjaldveggjum (e. paywalls). Segja má að Sci-Hub sé bein afleiðing þess hversu seint hefur gengið að uppfylla markmiðið um opinn aðgang og hversu kostnaðarsamt það getur verið að fá heildartexta að greinum. Eitt af því sem er heillandi við Sci-Hub er hversu einfalt er að nálgast heildartexta þaðan. Með einum smelli er notandinn kominn strax í heildartexta greinarinnar. Ef löglegar leiðir eru farnar í gegnum rafrænar áskriftarleiðir háskólabókasafna eru smellirnir yfirleitt mun fleiri. Nokkrar rannsóknir hafa einmitt sýnt að vísindamenn nota Sci-Hub ekki eingöngu til að lesa greinar sem þeir hafa ekki aðgang að heldur einnig vegna þægindanna og einfaldleikans (sjá t.d. hér).
Á undanförnum misserum hafa komið fram á sjónarsviðið þrjár ólíkar útfærslur sem byggja á einfaldleika Sci-Hub: Open Access Button, Unpaywall og Kopernio. Nálgast má löglegar útgáfur vísindagreina með einum smelli. Þetta er gert með því að leita m.a. í rafrænum varðveislusöfnum eins og Opnum vísindum, Google Scholar, PubMed og víðar. Notendur hlaða niður viðbót á vafrann sinn og geta þar með leitað að greinum á einfaldan og fljótlegan hátt.
Athugið að þetta eru ekki uppgötvunartól (e. discovery tool) heldur er þetta hugsað þegar nákvæmlega er vitað hvaða efni þarf nálgast.
Kopernio var nýlega keypt af Clarivate sem reka Web og Science og ISI áhrifastuðulinn.
Opinn aðgangur, hvað er það?
Á morgunkorni Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræðinga þann 25. október síðasliðinn hélt Sigurgeir Finnsson sérfræðingur á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni erindið:
Opinn aðgangur, hvað er það?: um opinn aðgang, Opin vísindi og ægivald útgefanda.
Glærur Sigurgeirs
Við sama tækifæri hélt Anna Sigríður Guðnadóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur á heilbrigðisvísindabókasafni LSH og HÍ, erindið „OpenAIRE verkefni Evrópusambandisins, hvað gengur það út á?“: