Málþing um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum

Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum þann 15. nóvember næstkomandi milli 12 og 14 í Þjóðminjasafninu.

Opinn aðgangur (e. open access) er þekkt hugtak í umræðunni um rannsóknir og birtingar fræða- og vísindafólks og snýst um óheftan aðgang almennings, nemenda háskóla og fræða- og vísindafólks um allan heim að rannsóknarniðurstöðum sem unnar hafa verið fyrir almannafé. Þetta geta verið rannsóknir styrktar með fé úr opinberum sjóðum eða fé sem rennur til háskólanna af fjárlögum og fer að hluta til rannsóknarstarfa innan þeirra. Hugmyndafræðin um opinn aðgang er í grunninn einföld en krefst samtals innan vísindasamfélagsins því sú breyting sem hlýst af víðtækum opnum aðgangi veltir af stað menningar- og kerfisbreytingu sem mun hafa áhrif á störf vísindafólks hvarvetna.

Frummælendur verða Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona bókasafns og upplýsingaþjónustu Háskólans í Reykjavík, Sigurbjörg Jóhannesdóttir verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands og Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri hjá Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni. Í pallborði bætast við Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Einar Karl Friðriksson, efnafræðingur og einkaleyfaráðgjafi og Sóley Morthens þróunarstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun.

Fundarstjóri verður Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Aðgangur er opinn og öllum heimill

sjá viðburð á facebook: https://www.facebook.com/events/592290041531501/

Vika opins aðgangs (Open Access Week) 21.-27. október

http://openaccessweek.org/

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn tekur þátt í alþjóðlegri viku opins aðgangs sem haldin er nú í 12. skiptið vikuna 21.-27. október. Þemað í ár er „Open for whom? Equity in Open Knowledge“ eða „Hver hefur aðgang? Þekking öllum opin“.
Tilgangur vikunnar er að efla umræðu og vitund um opinn aðgang (e. Open access) og tala fyrir að opinn aðgangur að rannsóknarniðurstöðum verði sjálfgefin en ekki undantekning.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun að þessu tilefni deila fjölbreyttu fræðsluefni um opinn aðgang á heimasíðu sinni daglega þessa viku.

 

Rafrænar bækur í opnum aðgangi á leitir.is

Í gagnagrunn leitir.is er búið að bæta við meira en 19 þúsund ritrýndum rafbókum hjá DOAB – Directory of Open Access Books í opnum aðgangi. Meðal útgefenda eru fræðafélög, háskólaútgáfur og viðurkenndir úgefendur vísindaefnis. Hægt er að hlaða niður einstökum bókaköflum eða rafbókinni í heild sinni.

Hlutverk DOAB, er að gera ritrýndar, akademískar rafbækur í opnum aðgangi sýnilegar og aðgengilegar. DOAB er á vegum OAPEN stofnunarinnar og er hýst í Landsbókasafninu í Hague. DOAB er styrkt af útgáfunum; BRILL, Springer Nature og De Gruyter en í gagnasafni DOAB eru rafbækur frá fleiri útgefendum og þar á meðal háskólaútgáfum og fræðafélögum. DOAB vann IFLA/Brill Open Access award 2015.