Lýðheilsa og opinn aðgangur: Þarf ekki að skipta um gír?

Apabóluvírus

Síðastliðin sjö ár hefur vísinda- og tæknisamfélagið fjórum sinnum gefið út yfirlýsingu þar sem skorað er á útgefendur vísindatímarita að gefa út rannsóknir tengdar tilteknum sjúkdómum í opnum aðgangi. Árið 2016 var það Zika,  2018 ebóla, árið 2020 COVID-19 og nú, árið 2022, eru það rannsóknir tengdar apabólu (monkeypox).

Það er alveg ljóst að tafarlaus opinn aðgangur að rannsóknum án getur flýtt fyrir viðbrögðum á alþjóðavísu hvað varðar lýðheilsu. Hingað til hafa útgefendur brugðist jákvætt við þessum beiðnum og gert viðeigandi rannsóknir aðgengilegar ókeypis. Til dæmis hafa Elsevier og Springer Nature  sett um 200 þúsund greinar tengdar COVID inn á PubMed Central. Og það virðist líklegt að þeir, og margir aðrir útgefendur, muni nú bregðast við með því að gera apabólurannsóknir aðgengilegar.

Gallinn er hins vegar sá, að þegar útgefendur veita slíkan ókeypis aðgang er það venjulega í takmarkaðan tíma og felur mögulega einnig í sér takmarkanir á því hvernig hægt er að endurnýta rannsóknirnar. – Nýleg rannsókn leiddi í ljós að sumir útgefendur eru farnir að setja upp „greiðsluveggi“ (e. paywalls) á ný varðandi rannsóknir á Covid-19 þrátt fyrir að heimsfaraldurinn sé enn í gangi. Þetta veldur bæði vonbrigðum og áhyggjum.

Opinn aðgangur ætti ekki að ráðast af alvarleika sjúkdóms heldur ætti hann að gilda um allar rannsóknir.

Til að koma í veg fyrir slík vandamál í framtíðinni – og til að koma í veg fyrir að þurfa að biðja útgefendur sérstaklega um að gera rannsóknir aðgengilegar – ættu styrkveitendur einfaldlega að krefjast þess að niðurstöður rannsóknanna sem þeir fjármagna séu gerðar aðgengilegar við birtingu og birtar með opnu leyfi (CC BY). Þetta leyfi gerir öðrum kleift að byggja á þessari rannsókn (með fyrirvara um fræðilega hlutdeild) án þess að þurfa að leita leyfis eða greiða leyfisgjöld.

Þrátt fyrir að þessi aðferð muni ekki opna fyrir eldri niðurstöður rannsókna, mun hún tryggja að allar núverandi rannsóknir og rannsóknir framtíðarinnar séu opnar. Og það sem meira er, hún mun tryggja að allar styrktar rannsóknir verði í opnum aðgangi, ekki eingöngu rannsóknir sem tengjast tilteknu neyðarástandi. Í ljósi viðvarandi áskorana sem við stöndum öll frammi fyrir – loftslagsbreytingar, matvæla- og vatnsöryggi, sjúkdómar – þurfum við að bregðast við núna til að tryggja að rannsóknarniðurstöðurnar séu opnar fyrir opinn aðgang.

Lauslega þýtt og endursagt:
Kiley, R. & Rooryck, J. (2022, August 16). Monkeypox and open access: time to change the narrative. Plan S. Sótt 16. ágúst 2022, af https://www.coalition-s.org/blog/monkeypox-and-open-access-time-to-change-the-narrative/

Mynd:
Apabóluvírus. National Institute of Allergy and Infectious Diseases (NIAID). Sótt á Flickr 16. ágúst 2022. CC BY 2.0.