Samantekt yfir þróun fræðilegra birtinga hjá Háskóla Íslands á undanförnum árum, með áherslu á stöðu opins aðgangs og útgáfu í ritrýndum alþjóðlegum gæðatímaritum. Tölulegar upplýsingar byggja á gögnum úr Scopus (SciVal), Web of Science (InCite)og OpenAlex, sem til samans geta gefið heildarmynd af stöðu birtinga.
Tölur í ársbyrjun 2026 sýna að Háskóli Íslands hefur sterka alþjóðlega stöðu, bæði hvað varðar birtingar í viðurkenndum tímaritum og vaxandi hlutdeild í opnum aðgangi.
Birtingar samkvæmt SciVal (Scopus)
Gögn úr SciVal, byggð á Scopus-gagnagrunninum, sýna að á tímabilinu 2020–2025 voru birtar 8.704 greinar eða um 1.400–1.500 árlega. Hlutfall birtinga í opnum aðgangi á tímabilinu voru 64,7%.
Fyrir árið 2025 eru skráðar 1.466 birtingar (með fyrirvara) og þar af 975 í opnum aðgangi, eða 66,5%.
Tímaritsfjórðungar og gæði tímarita
SciVal(Scopus) flokkar tímarit í fjórðunga (Q1–Q4) eftir vægi tímarita. Hér er stuðst við SciteScore-mælikvarðann. Útreikningur byggir á fjölda tilvitnana í greinar á ákveðnu tímabili, deilt með fjölda greina sem skráðar eru í Scopus og gefnar út á sama tímabili. Q1 fá efstu 25% tímarita, Q2 næstu 25% og svo koll af kolli.
Um 70% birtinga HÍ í Scopus eru í Q1-tímaritum og um 90% eru til samans í Q1 og Q2 sem undirstrikar sterka stöðu og gæði birtinga.

Mynd 1 Birtingar í Scopus 2020-2025
Samanburður síðustu ára sýnir að heildarfjöldi birtinga hefur haldist svipaður, en hlutfall birtinga í Q1 tímaritum hefur aukist sem bendir til vaxandi gæða. Þá eru um 39% birtinga HÍ að meðaltali í tímaritum sem tilheyra efstu 10%.
Árangursmælikvarðinn FWCI (Field-Weighted Citation Impact) hjá SciVal sem mælir meðaltal fjölda tilvitnana í útgáfum HÍ samanborið við heimsmeðaltal, var að jafnaði 1,65 á tímabilinu 2020–2025. Heimsmeðaltal hefur gildið 1. HÍ meðaltalið er því 65% yfir heimsmeðaltali.
Birtingar samkvæmt InCites (Web of Science)
Gögn úr IncCites, byggð á Web of Science, sýna 8.074 birtingar á tímabilinu 2020–2025 og þar af 5.182 í opnum aðgangi, eða 64,2%.
Árið 2025 eru skráðar 1.117 birtingar og þar af 746 í opnum aðgangi, eða 66,8%
Web of Science skiptir einnig tímaritum í fjórðunga eftir vægi eins og Scopus og byggir flokkunin á JIF (Journal Impact Factor) samkvæmt JCR (Journal Citation Reports). Á tímabilinu 2020–2024 (6.957 birtingar) voru um 48% birtinga í Q1 tímaritum og 24% í Q2, samtals 72% (upplýsingar vantar um skiptinguna 2025). Um 13,6% birtinga voru í tímaritum sem tilheyra efstu 10%.

Mynd 2 Birtingar í Web of Science 2020-2025
Árangursmælikvarðinn CNCI (Category Normalized Citation Impact) sem samsvarar FWCI hjá Scopus, var 1,55 fyrir HÍ á tímabilinu 2020-2025. Birtingar HÍ voru því að jafnaði 55% yfir heimsmeðaltali.
Samanburður á Scopus og Web of Science
Fjöldi birtinga hefur verið áþekkur milli gagnagrunna en munurinn liggur einkum í hlutfalli birtinga í Q1 tímaritum og efstu 10% sem er hærra í Scopus. Hafa ber í huga að Q-útreikningar þessa gagnagrunna byggja á gagnasöfnum sem nota ekki sömu mælikvarða, og eru mismunandi að eðli og stærð. Scopus nær yfir stærra og fjölbreyttara gagnasafn með tímaritum, ráðstefnuritum og bókarköflum. Fjöldi tímarita þar er um 27.000 meðan Web of Science geymir um 21.000 tímarit og er með strangari gæðaviðmið. Sama tímarit getur jafnvel lent í mismunandi Q-flokkum hjá Scopus og hjá Web of Science.

Mynd 3 Hlutfall birtinga í Q1 tímaritum hjá Scopus(SciVal) og Web of Science(InCite)
Opinn aðgangur samkvæmt OpenAlex
OpenAlex sameinar lýsigögn úr fjölda opinna kerfa (þ.m.t. DOAJ, PubMed, opin varðveislusöfn og Wikidata) þannig að niðurstöður þaðan byggja á annars konar upplýsingum en hjá Scopus og Web of Science.
Samkvæmt OpenAlex var hlutfall útgáfu HÍ í opnum aðgangi á tímabilinu 2020–2025 að meðaltali 72,2%, og á árinu 2025 náði hlutfallið 76,5%.

Mynd 4 Hlutfallsleg dreifing birtinga HÍ eftir mismunandi leiðum í opnum aðgangi
Gögn í OpenAlex sýna aukið vægi gullnu og blönduðu leiðanna, það er birtinga í tímaritum gefnum út í opnum aðgangi eingöngu (gull) og tímaritum sem gefa efni út bæði í opnum og lokuðum aðgangi (blönduð). Þessi tímarit eiga það sameiginlegt að greiða þarf birtingargjöld (APC) fyrir opinn aðgang. Gögnin sýna minnkandi hlutdeild gænu og bronsleiðanna. Græna leiðin leyfir birtingu í opnu varðveislusafni eins og Opnum vísindum og brons leyfir tímabundna birtingu á vef útgefanda án endurgjalds. Demantaleiðin hefur rokkað til og frá á tímabilinu, en hún byggist á því að hvorki eru innheimtar áskriftir né birtingargjöld. Kostnaður við útgáfu leggst í staðinn til dæmis á háskóla og rannsóknarstofnanir.
Í alþjóðlegum samanburði stendur HÍ vel samkvæmt OpenAlex. Hlutfall opins aðgangs á árunum 2020–2025 er rétt rúmlega 72% sem er örlítið lægra meðaltal Norðurlanda, en yfir heimsmeðaltali og hærra en hjá Bandaríkjunum og Bretlandi.

Mynd 5 Samanburður milli landa á stöðu opins aðgangs á tímabilinu 2020-2025
Samanburður
Þegar borin eru saman gögn úr Scopus, Web of Science og OpenAlex kemur í ljós að hlutfall birtinga í opnum aðgangi er svipaður milli Scopus og Web of Science og virðist fara hækkandi. Hlutfall opins aðgangs er hærra í OpenAlex enda byggir hann á ólíkum gögnum, með meiri áherslu á opna gagnagrunna.

Mynd 6 Hlutfall birtinga í opnum aðgangi hjá Scopur(SciVal), Web of Science(InCite) og OpenAlex
Samantekt og niðurstaða
Niðurstöður sýna að Háskóli Íslands hefur náð góðum árangri með birtingar í gæðatímaritum og innleiðingu opins aðgangs. Hátt hlutfall opins aðgangs og sterkir árangursmælikvarðar í SciVal og InCites undirstrika gæði og sýnileika rannsókna við Háskóla íslands.