Búið er að ljúka gerð samnings um endurbætur á rannsóknarmati en ferlið við þá vinnu hófst í janúar 2022. Þann 8. júlí sl. var síðan haldinn fundur hagsmunaaðila þar sem saman komu yfir 350 stofnanir frá rúmlega 40 löndum sem lýst höfðu áhuga á að taka þátt í ferlinu. Sjá lista. Háskóli Íslands er enn sem komið er eina íslenska stofnunin sem getið er um.
Þann 20. júlí 2022 sl. var lokaútgáfa samningsins kynnt og þar koma „opin vísindi“ vissulega við sögu.
Meðal stofnana og samtaka sem munu taka þátt í þessum endurbótum eru opinberir aðilar, einkaaðilar, stofnanir sem fjármagna rannsóknir, háskólar, samtök vísindamanna og margir fleiri. Þessir hagsmunaaðilar tóku þátt í þróun samningsins sem unninn var af teymi skipað fulltrúum frá European University Association -EUA, Science Europe, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Dr. Karen Stroobants, sérfræðingi í rannsóknum rannsókna.
Kjarnahópur 20 rannsóknastofnana og fulltrúa rannsóknarsamfélagsins í Evrópu lagði einnig sitt af mörkum.
Haft var samráð við aðildarríki ESB og tengd lönd um samninginn innan ramma ERA Forum og the European Research Area Committee (ERAC).
Samningurinn um endurbætur á rannsóknarmati markar sameiginlega stefnu sem varða breytingar á matsaðferðum fyrir rannsóknir, rannsakendur og stofnanir sem framkvæma rannsóknir. Aðalmarkmiðið er að hámarka gæði og áhrif rannsókna.
Samningurinn felur í sér meginreglur, skuldbindingar og tímaramma umbóta og kveður á um meginreglur fyrir þær stofnanir sem eru reiðubúnar að vinna saman að innleiðingu breytinganna.
Þeir aðilar sem undirrita. skuldbinda sig til sameiginlegrar framtíðarsýnar, sem felst í því að mat á rannsóknum, rannsakendum og rannsóknastofnunum viðurkennir margvíslegan árangur, starfshætti og starfsemi sem hámarkar gæði og áhrif rannsókna. Til þess þarf fyrst og fremst að byggja á eigindlegu mati, þar sem ritrýni er aðalatriðið, studd af ábyrgri notkun megindlegra vísbendinga.
Umbótahreyfingin miðar að því að vera vettvangur samvinnu án aðgreiningar til að þróast saman í átt að vandaðra, áhrifameira og skilvirkara rannsóknakerfi fyrir alla. Í því felst vettvangur fyrir tilraunastarfsemi, þróun nýrra matsviðmiða, aðferða og verkfæra, sameiginleg og gagnrýnin ígrundun, samvinna um góða starfshætti, gagnkvæmur lærdómur og reynsla, á sama tíma og sjálfstæði stofnana er virt að fullu.
Stofnanir munu, með stuðningi umbótahreyfingarinnar, ákveða skref til að hrinda skuldbindingum í framkvæmd og hraða þeirra að teknu tilliti til aðstæðna á hverjum stað (t.d. aðstæðna á landsvísu, fræðasviða eða mati varðandi einstaka vísindamenn, rannsóknareininga, rannsóknarstofnana eða rannsóknarverkefna) og stefnumarkandi markmiða og verkefna hverrar stofnunar.
Samtök og stofnanirsem taka þátt í rannsóknarmati, með aðsetur í Evrópu eða víðar, eru hvött til að undirrita samninginn og ganga í kjölfarið í bandalagið.
Söfnun undirskrifta í tengslum við samninginn verður hleypt af stokkunum 28. september nk. á European Research & Innovation Days á vegum Evrópusambandins.
Grein þessi er byggð á frétt af vefsíðu EUA – European University Association frá 20. júlí 2022: Reforming research assessment: the Agreement is now final.