Rányrkjutímarit og grunlausir rannsakendur

Ný grein í tímaritinu Nature ber yfirskriftina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Þetta er holl lesning fyrir rannsakendur sem eru að fóta sig í útgáfuumhverfinu sem fræðimenn búa við.

Rányrkjutímarit eru orðin útbreidd innan vísindasamfélagsins. Þessi tímarit innheimta gjöld af höfundum,  birta óritrýndar greinar, sóa tíma og peningum vísindamanna og grafa undan trausti almennings á vísindum.

Nýleg könnun leiddi í ljós að margir vísindamenn frá lág- og meðaltekjulöndum sendu vísvitandi greinar til rányrkjutímarita og sáu í því tækifæri til að öðlast framgang í  samkeppninni innan akademíunnar.

Skortur á fræðslu um útgáfuviðmið  og skortur á stuðningi rannsóknarstofnana stuðlar að því að rannsakendur verði fórnarlömb slíkra útgefenda. Þeir nýta sér þekkingarskort vísindamanna á fræðilegri útgáfu og bjóða hraðvirkt og einfalt útgáfuferli.

Hér þarf að gera betur.

Skoða greinina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Mynd: Úr greininni „Predatory journals: What they are and how to avoid them“.

Skýrsla frá IAP um rányrkjutímarit og ráðstefnur

Út er komin skýrsla á vegum IAP (The InterAcademy Partnership) Science, Health, Policy sem ber heitið „Combatting Predatory Academic Journals and Conferences“ eða „Baráttan við rányrkjutímarit og ráðstefnur“. Útdráttur skýrslunnar er sannarlega verðug lesning fyrir alla rannsakendur og tengist einnig umræðunni um opinn aðgang.

Í skýrslunni kemur fram að svokölluð rányrkju- eða gervitímarit eru talin vera yfir 15.500 talsins. Kveikjan að bæði rányrkjutímaritum og ráðstefnum af sama toga eru hagnaðarsjónarmið en ekki fræðimennska. Falast er eftir greinum/útdráttum frá rannsakendum með aðferðum sem nýta sér þann þrýsting sem er á fræðimenn að gefa út og birta sem mest.

Lesa áfram „Skýrsla frá IAP um rányrkjutímarit og ráðstefnur“